Djassari „Flæði er lykilatriði“ segir Kári Egilsson, höfundur Óróapúls.
Morgunblaðið/Eggert

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. nóvember.

Hinn ljúfi skarkali

Kári Egilsson fer með himinskautum um þessar mundir og útgáfulega er hann sannkallaður dugnaðarforkur. Þannig er Óróapúls önnur plata hans á árinu og í þetta sinnið fær djassinn að duna.

Plata Kára frá því í mars, Palm Trees in the Snow, er glúrinn leiðangur inn í popptónlist fyrri ára þar sem áttundi áratugurinn er sérstaklega vottaður. Hljóðheimurinn er í raun einstakur þar sem höfundur er rétt skriðinn yfir tvítugt og gat því eðlilega ekki upplifað þá tónlist í rauntíma. Sú staðreynd gefur plötunni mjög ákveðinn blæ og töfra. Ég sökk svo dýpra í þessa „fílun“ er ég sá Kára leika efni af plötunni á nýliðinni Airwaves-hátíð. Gamla bíó var undirlagt af einstakri stemningu, bæði í sal og uppi á sviði, hvar Kári og félagar leiddu áhorfendur inn í þennan heim af mikilli ástríðu. Framfærslan hrein og sönn og innlifunin mikil.

Þetta jafnhattar Kári en þrátt fyrir ungan aldur leikur hann jöfnum höndum djass, klassík og popptónlist. Og á Óróapúlsi er fyrstnefndi stíllinn í forgrunni.

Með Kára á plötunni eru þeir Nico Moreaux, Matthías Hemstock, Jóel Pálsson og Snorri Sigurðarson og var platan tekin upp í Sundlauginni, Mosfellsbæ, tiltölulega „beint“. Albert Finnbogason stýrði upptökum og í viðtali við Víðsjá síðastliðinn september lýsti Kári því sem svo að lögin séu að vissu leyti skrifuð en nægt rými sé fyrir spuna. Að ná fram flæði sé lykilatriði og það hafi verið lítið mál, þannig lagað séð, með þetta mannval í rýminu. „Það er dálítið skrítið að velja tökur sem eru kannski ekki fullkomnar en það er fílingur sem passar inn í heildarmyndina,“ sagði hann m.a.

En að plötunni og byrjum á því að skoða téða heildarmynd. Þetta er lagrænn nútímadjass, Evrópumiðaður að mestu með dassi af New York (sem passar ágætlega við íverustaði Kára undanfarin ár). Maður heyrir í meisturum eins og Keith Jarrett og jafnvel Oscar Peterson er Kári hleypir sér á hlemmiskeið. Ef við færum okkur nær nútímanum má auk þess greina áhrif frá Brad Mehldau. Hljómfallið sjálft, „platan“, er sprúðlandi. Maður nemur ferskleikann, áhugann og hvernig píanóleikarinn ungi gefur sig allan í ferlið. Það er greinilegt og gildir þá einu hvort um er að ræða fjörug lög eða ballöður. Fjölbreytni er enda blessunarlega fyrir að fara og aldrei leiðist manni þófið.

„Ring Rhyme“ opnar plötuna eða „Hringhenda“ eins og Kári kallaði það í áðurnefndu Víðsjárspjalli. Í senn kunnuglegt og óvenjulegt lag þar sem dansað er af krafti upp og niður tónskalann. Það er keyrt út að ystu nöf en bakkað svona rétt áður en manni bregður. Titillagið er sama marki brennt, „órólegt“ eins og titillinn ber með sér. Smíð sem gefur sig ekki, Kári neitar að sýna á öll spil og hendir t.d. inn æði smekklegum – og eiginlega óvæntum – orgelkafla til undirstrikunar. Lög eins og „The Blue Corner“ og „The Old Streets“ eru „eðlilegri“, þekkilegar og til þess að gera klassískar djasssmíðar. Maður heyrir aðeins í kennara Kára, Eyþóri Gunnarssyni, í „Katergo“ og er þetta Joshua Redman sem rekur inn nefið í „Half-Man“? Í laginu „Skarkali“ er öllu hleypt í bál og brand undir rest og þeir Jóel og Snorri sólóa hvor á annan af miklum móð („Ég var að hugsa um borgarskarkala“ lýsti Kári í Víðsjá). Lokalagið, „Nocturne“, er þá meira með klassísku/nútímatónlistarsniði en djass. Hugleiðandi, sefandi smíð og fallegur endahnútur á þessa vel heppnuðu djassfrumraun.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: