Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 8. september, 2018


„Mér hlýnaði um hjartað“


Rætur er plata Kjass, en á bak við það listamannsnafn stendur Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir. Innihaldið er lágstemmdur djass, með þónokkrum áhrifum úr íslenskri þjóðlagatónlist.

Pistilhöfundi barst bréf í vikunni, og það alla leiðina frá hinni fögru Mývatnssveit. Söngkonan Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir tilkynnti honum um nýja plötu sína, Rætur, sem hún gerir undir listamannsnafninu Kjass. Vandað er til verka í hvívetna og lýsing listamannsins á plötunni rétt: „Lágstemmdir djasshljómar og áhrif frá íslenskri þjóðlagatónlist.“ Einnig bætir hún við að tónlistin sé þannig að hún „fellur afar vel að fyrsta kaffibolla á sunnudagsmorgni eða til að ylja sér við á dimmu vetrarkvöldi“.

Aftur er ég sammála, nú er ég búinn að rúlla gripnum nokkrum sinnum og þetta stendur heima. Nærgætin og umlykjandi tónlistin er í djassmóti en íslensk þjóðlög til grundvallar, sem Fanney syngur á sama hátt. Þagnir eru t.a.m. notaðar á áhrifaríkan hátt, gítarstrokurnar koma eftir tveggja sekúndna bið, píanósláttur varlegur og mjúkur og upptaka virkilega innileg, þar sem maður heyrir skrjáfið þegar tónlistarmennirnir færa sig til í sætunum. Síðasta lagið, „Krummi (svaf í klettagjá)“ leyfir sér að fara aðeins út fyrir rammann, er grimmt og kalt en fellur engu að síður eins og flís við rass hvað hljóðmynd varðar. Það var Róbert Steingrímsson sem sá um upptökur og hljóðblöndun en hljómjöfnun var í höndum Haffa Tempó. Eins og segir, stemningin er blíð og áhrifamikil. Minnir á köflum á glæsiverk Einars Scheving, Land míns föður, sem nýtti sér íslensk þjóðlagaminni og gömul dægurlög til að dýrka upp einstakan andblæ.

Fanney starfar sem tónlistarkona á Akureyri og sækir tónlistararf sinn í Mývatnssveitina þar sem hún ólst upp. Hún nam við Tónlistarskóla Húsavíkur, Tónlistarskóla FÍH og Tónlistarskólann á Akureyri og hefur gert djassútsetningar af íslenskum þjóðlögum, haldið fjölda tónleika jafnt með eigin tónlist og tónlist annarra og samið tónlist fyrir kvikmyndir. Fyrstu skrefin við gerð hljómplötunnar voru tekin árið 2012 þegar Fanney setti saman hljómsveitina Kjass. Í hljómsveitinni voru Anna Gréta Sigurðardóttir (píanó), Mikael Máni Ásmundsson (gítar), Birgir Steinn Theodorsson (kontrabassi) og Óskar Kjartansson (trommur). Verkefnið hefur svo þróast og er orðið listamannsnafn Fanneyjar. Upptökur fyrir hljómplötuna fóru fram í tveimur hlutum, fyrst árið 2012 með hljómsveitinni og síðan 2017, en í það skipti eingöngu með Önnu Grétu og sjálfum Tómasi R. Einarssyni.

Platan verður gefin út rafrænt en einnig sem vínylplata. Þess má geta að útgáfutónleikar munu fara fram í Fríkirkjunni hinn 13. september.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: