Efnileg Kolbrún Óskarsdóttir, KUSK.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 5. nóvember, 2022.

Sem ferskur andvari

KUSK, Kolbrún Óskarsdóttir, sigraði í Músíktilraunum með glæsibrag liðið vor. Skvaldur er hennar fyrsta breiðskífa.

Kolbrún Óskarsdóttir sigraði í Músíktilraunum einungis nítján ára gömul og þetta var í fyrsta skipti í 40 ára sögu tilraunanna sem einstaklingur gerir það. Pistilritari hreifst af innslagi hennar eins og svo margir og gaman og gott að hún sé iðandi af fjöri enn. Kolbrún er verðugur fulltrúi nýrrar kynslóðar í tónlist sem ber með sér nýjar áherslur og hugsjónir, hvort sem er í fatavali, umhverfispólitík eða í sjálfri tónlistinni. KUSK er á miklu flugi nú um stundir og talar beint inn í samtímann þar sem tónlistarkonur eins og Bríet og GDRN fara mikinn. Hún er örugg á sviði og sjarmerandi, tónlistin svalt og umlykjandi rafpopp með vísunum í Vök og GusGus.

Ég kann ávallt að meta það er sigurvegarar nýta sér meðvindinn og snara út efni hratt og vel. Skvaldur var unnin með nokkrum aðilum: Óviti (Hrannar Máni), sem er einn helsti samstarfsmaður Kolbrúnar, kemur við sögu sem og Snorri Beck Magnússon. Kári Hrafn Guðmundsson hljóðblandaði og Starri Snær Valdimarsson hljómjafnaði. Í nýlegu viðtali við Dóru Júlíu Agnarsdóttur hjá Fréttablaðinu kemur fram að platan hafi verið í bígerð í um það bil hálft ár. Hún hafi svo byrjað að taka á sig mynd þegar ljóst var að Kolbrún myndi taka þátt í Músíktilraunum. Kolbrún hefur verið í alls kyns listastússi undanfarin ár og er núna í LHÍ. Textar hennar eru skemmtilegir, oft náttúruvísanir, enda upplýsti hún í viðtali við Kristínu Heiðu Kristinsdóttur í blaði þessu rétt eftir Músíktilraunasigurinn að hún væri ávallt með bók á sér þar sem hún skráði niður setningar „sem verða til við hverja þá stemningu sem ég skynja í umhverfinu. Ég er sjaldan að segja sögur í mínum textum en ég er stundum að lýsa aðstæðum eða taka inn það sem er í kringum mig … Í laginu „Lúpínum“ samdi ég til dæmis laglínuna þar sem ég sat á gólfinu heima við tölvuna, nýkomin úr útilegu þar sem ég hafði setið í hafi af lúpínum.“

Skvaldur fer vel af stað með laginu „Undan berum himni“, gáskaríkt tölvupopp með gítarlykkju sem minnir helst á klingjandi gítarrokk Smiths og áþekkra sveita. Söngröddin örugg og karakterrík. Næsta lag, „Morgunn“, er melódramatískara og það er eilítið stíllinn heilt yfir. Rafpopp með rökkurblæ. „Dagur við sundlaugina“ er í svipuðum fasa og eins er með „Tuttugu klukkutímar“. Ó hvað við Norðurlandabúar elskum að krydda tónasúpur vorar með gotnesku kryddi! Lögin eru misstrípuð mætti segja og vissulega er byrjendabragur á ýmsu hér, skárra væri það nú. Verkið endar á „Lúpínur“, því besta sem KUSK hefur gert, og lauk Kolbrún eftirminnilegu setti á úrslitakvöldi Músíktilrauna með einmitt þessu lagi. Dramatískt lag og hægt, nánast epískt, en það sem mest er um vert; alveg ægilega fallegt. Afar áhrifaríkt verður að segjast, maður sogast inn í það þegar það hefst og tíminn stoppar þó ekki sé nema í augnablik. Þegar þetta birtist hefur KUSK vonandi spilað nokkrum sinnum á Iceland Airwaves-hátíðinni og mikið sem ég vona að einhver hákarlinn hafi kveikt á perunni við atið. Kolbrún er nefnilega afar efnileg listakona, sjarmerandi og hefur allt til að bera til að ná sem allra lengst.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: