Hersing Spánný Mammút stillir sér upp vegna spánnýrrar plötu.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 31. október, 2020.

Eins og fjallið eina

Fimmta plata Mammút kallast Ride the Fire. Nýr trommuleikari er genginn til liðs við sveitina en hljómurinn er nokk auðþekkjanlegur samt sem áður. Eða hvað?

Mammút er langlíf sveit (og nú ætlaði ég að koma með hnyttinn samanburð á aldri sveitarinnar og líftíma loðfílsins en brandarinn gekk ekki upp. Þannig að ég sleppi honum). En já, sextán ár er talsvert, og Mammút hefur slípað steininn frá morgni til kvölds að heita má eða allt síðan hún sigraði í Músíktilraunum með glæsibrag árið 2004. Mammút hefur síðan þá verið ein af okkar helstu rokksveitum, stöðugt að í gegnum hljómleikahald sem og plötuútgáfu.Vinátta og tilfinnanleg stemning hefur ávallt leikið um þann hóp sem Mammút skipar hverju sinni, eitthvað sem er síst gefið í þessum fræðum en ábyggilega stór þáttur í velgengni hljómsveitarinnar. Sígandi lukka er best og það á ekki síst við um plötur Mammút. Fyrstu tvær, Mammút (2006) og Karkari (2008), voru um margt ójafnar en sveitin sýndi loks hvers hún var megnug á Komdu til mín svarta systir (2013). Mikilúðlegt verk og „fullorðins“. Síðasta verk, Kinder Versions (2017), sem gefið var út af Bella Union í Bretlandi er þá margverðlaunað og ekki að ósekju. Sú plata tók m.a. áhrif frá nýrokki níunda áratugarins, U2 (The Unforgettable Fire) og Cocteau Twins. Gotablær og grúvandi síðpönk yfir.

Ride The Fire var tekin upp á Íslandi og í London. Árni Hjörvar, bassaleikari The Vaccines, sá um upptökustjórn, Sam Slater hljóðblandaði (Hildur Guðnadóttir) og um hljómjöfnun sá Mandy Parnell (Björk og Sigur Rós). Trommuleikarinn Valgeir Skorri Vernharðsson hefur nú gengið til liðs við hljómsveitina og þreytir hér frumraun sína, leysir Andra Bjart Jakobsson af.

Mammút hefur fyrir margt löngu tálgað til ákveðinn einkennishljóm og liggur hann yfir plötunni. Útfærslur eru nýjar og öðruvísi, en grunnurinn er sá sami. Og eins og ég lýsi hér í upphafi, það tók tíma að draga gæðin fram, svona eins og þegar pottréttur er látinn malla hálfan daginn eða svo. Þolinmæði, saman með seiglu, borgar sig. Mammút hefur, sérstaklega á síðustu þremur plötum, unnið gagngert með skandinavísk rökkurminni (gotablærinn) og það er svöl síðpönksára yfir líkt og venjulega. Hljóðmynd plötunnar er frábær. Allt skýrt og gott, allir „levelar“ réttir. Það er alltaf erfitt að lýsa hljómi með orðum en myndin sem maður fær er af dökkri og umlykjandi plötu. Gítarar klingja og eru hvassir, bassinn er feitur, djúpur og töffaralegur og Katrína Mogensen söngkona leiðir lögin eins og sú sem valdið hefur. Innkoma Vernharðs er líka mjög öflug, hann veldur starfinu með glans. „Sun and Me“ er vel til fundið opnunarlag og kynnir allt það sem ég var að tala um til leiks. Það er drjúgt á næstu þremur lögum svo, hálfgerðar myrkraballöður en um leið mikill leikur í útsetningum (sjá skothríðina í „Pow Pow“). „Prince“ kemur svo þægilega inn, skammlaust popplag og hin fallegasta smíð. Gotagangan heldur svo áfram („Forever on your mind“ kallar fram Joy Division, Killing Joke, Interpol o.fl.) og „Still Like A Mountain“ er glæst, styðst við hálfgerðan spagettívestragítar, ísi lagður eyðimerkuróður!? „Fire“ er hálfgert varðeldalag (og algerlega frábært) og sýnir vel það fjölskrúðuga vopnabúr sem sveitin býr að eftir öll þessi ár.

Ride the Fire er stöndug plata. Það blasir ekkert við í fyrsta rennslinu en ef fólk leyfir henni að marinerast eru verðlaun. Þú finnur nefnilega þá og heyrir að þetta er band sem var ekki stofnað í gær, reynslan og telepatískt samband meðlima á milli skilar sér inn í lögin og heildarmyndina. Eldurinn beislaður, já svo sannarlega!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: