Teknó Milena Glowacka er í senn takföst og tindilfætt.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. janúar, 2020.

Ljómandi gott

Ein besta útgáfan á síðasta ári úr heimi dans- og raftónlistar var platan Radiance. Höfundur er Milena Glowacka, Pólverji sem búsettur er hér á landi.

Raftónlistarútgáfa hérlendis var með heilbrigðasta móti á síðasta ári. Hérlendis er næstum rangnefni reyndar, því að margir af okkar helstu listamönnum gera að langmestu leyti út á erlendan markað. Agzilla gaf t.d. út á Metalheadz, Bjarki gaf út á !K7 Records (Berlín) og Exos gaf út á Figure (Berlín). Hér heima voru Móatún, Möller Records, Lagaffe Tales og FALK iðin við kolann að vanda og slatti af plötum komu út á þeirra vegum. Plássið hér gefur mér ekki færi á frekari upptalningu. FALK gaf t.d. út þessa ljómandi fínu plötu Milenu Glowacka, Radiance, og allt á hreinu, bæði tónlistarlega og umslagslega. Fullorðins. Plötunni er hægt að streyma en einnig kom út snælda í takmörkuðu upplagi. Milena Glowacka fluttist hingað til lands fyrir tveimur árum. Hún er teknólistamaður í grunninn, lögin eru naumhyggjuleg og nokk köld, grúva vel en eru um leið með nægilega mikið af „skrýtnum“ hlutum í gangi ef svo mætti segja. Milena fluttist frá Varsjá til Reykjavíkur með það að markmiði að komast í minna stressandi umhverfi en hún hefur gefið út hjá merkjum eins og Semantica, Delirio og Vanity Pill. Hún varð snemma tónlistaráhugamaður og hlustaði á uppáhaldstónlistina sína, vopnuð Walkman-segulbandstækinu góða. Einhverju sinni stillti hún fyrir tilviljun inn á útvarpsstöð sem var að senda út teknótónlist. Hrifin seildist hún eftir kassettu og tók allt saman upp. Enginn í nærumhverfinu gat upplýst hana um hvað þetta væri nákvæmlega en hún hélt áfram að hlusta, í hverri viku. Þrettán ára fékk hún svo sína fyrstu tölvu og hóf að semja tónlist inn á hana.

Í viðtali við teknóritið Monument lýsir hún því hvernig hún valdi Ísland sem stað fyrir nokkurs konar endurræsingu. Í sama viðtali viðurkennir hún að hún sé ekki endilega í miklu sambandi við hérlenda teknólistamenn þó að það sé allt að koma.

Eins og segir, það mætast nokkrir straumar í tónlist Milenu, a.m.k. á Radiance. Lögin eru taktviss en um leið dálítið drungaleg, nánast lágstemmd og minni úr „ambient“-tónlist og tilraunamennsku gera vart við sig. Eitt lagið er t.a.m. fremur hægt, grjóthart og gæti verið úr einhverri hryllingsmyndinni (kvikmyndatónlist er eitthvað sem Milena gæti hugsað sér að sinna í framtíðinni). Lagið kallast þá hinu snilldarlega nafni „You are such a Dissapointment“.

Milena staðfestir þessi hughrif pistilritara í áðurnefndu viðtali, hún leitist við að hafa lögin tilfinningaþrungin, sýruskotin og drunumiðuð jafnvel („drone“). Hún hefur þá einnig gefið út „ambient“-tónlist sem Plus Size, þar sem óhljóðalist og vettvangsupptökur mynda m.a. hljóðmyndina. Það verkefni sé hins vegar á ís eins og er. Nú sé Milena Glowacka, listamaðurinn, í forgrunni og hún sé þá hætt að troða upp sem plötusnúður, nú komi hún eingöngu fram með eigin tónlist. Þar finni hún sig algerlega, það sé afar gefandi að leika eigin smíðar fyrir fólkið. Eins og áður segir, Radiance var með skemmtilegri útgáfum á síðasta ári, hressandi búbót því að fyrir það fyrsta eru konur ekki fjölmennar í raf/danstónlistarsenunni, hvað þá að fólk af erlendu bergi brotið, búsett hér, sé virkt í tónlistarsenu landsins. Er þetta því vel. Lifi fjölbreytnin.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: