Sterk „Stöndugt verk hjá MSEA og sérdeilis glæsilegur frumburður.“
— Ljósmynd/Alda Valentína Rós.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 2. desember.

Rölt í átt að heimsenda

Our Daily Apoca­lypse Walk er plata eftir MSEA sem er listakonunafn Mariu-Carmelu Raso. Ævin­týralegt og markaþenjandi verk hvers hljóðheimur er í senn dularfullur og lokkandi.

Ég var búinn að hafa augu (og eyru) með MSEA í nokkurn tíma og gladdist því innilega þegar hillti loks undir breiðskífu frá henni. Hún (Maria-Carmela Raso) semur, upptökustýrir og flytur en Árni Hjörvar var vélamaður, hljóðblandaði og meðupptökustýrði. Valmenni voru með í för, þau Laufey Soffía (söngur í „Our Daily Apocalypse Walk“), Sigurlaug Thorarensen (bakraddir), Ægir Sindri Bjarnason (trommur), Julius Rothlaender (bassi), Árni Hjörvar (bassi, bakraddir), Úlfur Alexander Einarsson (gítar), Ana Luisa Diaz de Cossio (fiðla), Rún Árnadóttir (selló) og Bergþóra Kristbergsdóttir (klarinett).

Byrjum á hughrifum og umslög koma þeim oft af stað. Umslag plötunnar (mynd/listvinnsla var í höndum Maríu Gudjohnsen) styður algerlega við innihaldið. Það er eitthvað framtíðarlegt við þetta allt saman og kalt. Krómað og vélrænt. MSEA lýsir því sjálf að hún sé að rannsaka mörkin á milli „fegurðar og óþæginda“ og það er margt til í því. Hér eru melódíur og jafnvel grúv en svo er okkur þeytt inn í stálköld óhljóð og undarlegheit. Það er eitthvað „off“ eins og stundum er sagt og þá á jákvæðan, útreiknaðan og skáldlegan hátt. Það er David Lynch-blær yfir þar sem hlutirnir virðast svona tiltölulega eðlilegir á yfirborðinu en undir niðri kraumar óskapnaður. Það er spenna og reiptog og höfundur segir svo frá sjálfur: „Platan er áleitin, þykkhjúpuð og djörf – í nokkurs konar mótstöðu við mig.“

Viljiði nöfn? Ég vil nöfn, elska það, og ekkert sprettur úr engu. Ég hugsa um Björk, bæði tónlistina hennar og vélmennin í „All is full of love“ en líka um tilraunagleði Laurie Anderson, raddspretti Meredith Monk, glæsimelódíur Juliu Holter og handanheimsstemningu Cocteau Twins og Dead Can Dance. Þetta er ekki leiðu fólki að líkjast!

„Wasting your time / You left me no choice“ opnar plötuna með draugalegum hljóðgervlum og svo „unninni“ röddu MSEA. Þessi andi sem ég lýsi hér fyrr leggst umsvifalaust á og það eru viss „ónot“ sem fylgja þessu ekki ósvipað og þegar maður hlustar á The Drift með Scott Walker. „Hvað er eiginlega að fara að gerast?“ hugsar maður. Lagið fer kröftuglega af stað og flæðið er brotið upp með hvössum „industrial“ hljómum líkt og Skinny Puppy séu mætt í bæinn. „Mouth of the face of the sea“ er „eðlilegra“, hálfgert tripp-hopp og fallega er það sungið. Bæði aðalrödd og bakraddir. Heil mínúta fer þá í drungalegt, bassaríkt eftirspil. „Sap of the sun“ töltir sömuleiðis um í þessum hljóðræna handanheimi og annað er eftir þessu. Stök lög eru tilbrigði við stef en grunnlínan er þessi ógnvænlegi hljóðheimur sem er engu að síður mjúkur og meyr. Þessi leikur með andstæður, fegurð og eitthvað ókennilegt/skringilegt gengur upp. Í einu og sama laginu er að finna ljúfar melódíur, svífandi „ambient“, blíðan söng og beljandi skruðninga. Plötunni er svo lokað smekklega með titillaginu hvar Laufey Soffía (Kælan mikla) syngur með okkar konu.

Stöndugt verk hjá MSEA og sérdeilis glæsilegur frumburður. Hér er margt að byggja á og vonandi að Maria-Carmela hlýði sinni köllun. Þetta ár hefur gefið okkur góðan fjölda af framsækinni tónlist úr ranni kvenna – líkt og þau síðustu reyndar – og það eru forréttindi að fá að upplifa þennan brodd í beinni útsendingu.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: