Grjótharðir Múr eru allir vegir færir og vinna við næstu plötu er þegar komin á rekspöl. — Ljósmynd/Anna Maggý

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 18. janúar.

Drynjandi dásemd

Fyrsta plata Múr, samnefnd sveitinni, kom út seint á síðasta ári. Framtíð íslenska öfgarokksins hefur sennilega aldrei verið bjartari og mikið er látið með þessa þrælefnilegu sveit nú um stundir.

Ég hef séð framtíð íslenska öfgarokksins. Og nafn hennar er Múr.“ Það er stundum gaman að leika sér með meitlaðar tilvísanir úr rokksögunni en hér er yfirlýsing Jons Landau er hann sá Bruce Springsteen spila fyrir fimmtíu árum staðfærð af yðar einlægum. Við getum jafnvel sagt „loksins, loksins“ eins og Kristján heitinn Albertsson sagði eftir að hafa lesið Vefarann mikla frá Kasmír. Mér varð hugsað til þessa er ég sá Múr á útgáfutónleikum vegna téðs frumburðar í Iðnó nú á milli jóla og nýárs. Íslenskt öfgarokk heilt yfir hefur reyndar verið við ansi góða heilsu undanfarin ár og senan hérlendis er þróttmikil, veri það í tónleikahaldi eða útgáfu í gegnum streymisveitur sem efnisleg form. Strandhögg utan landsteina eru æði algeng líka og hafa verið giska árangursrík þegar allt er saman tekið.

Og þetta eru ekki innihaldslausir stílstælar í mér þegar ég vísa í Springsteen og Laxness. Múr hefur verið í huga íslensks tónlistaráhugafólks allt síðan hún sigraði í Íslandsriðli Wacken Metal Battle-keppninnar vorið 2022. Allir sem séð hafa sveitina á tónleikum falla umsvifalaust í stafi og þeir sem eru ekki málmvanir sjá ljósið um leið. Það er búið að vera mikið „suð“ eins og sagt er og feginn varð ég þegar ég sá að Múr var komin á mála hjá hinu rótgróna Century Media Records. Ég vissi að þá kæmist hreyfing á hlutina og nú blasir það við svo um munar.

Platan atarna er hin burðugasta. Fyrsta lagið er í senn epískt og fallegt, Sigur Rósar-legt og við erum hremmd í ógurlegu tónafljóti næstu fimmtíu mínútur eða svo. Lögin ganga upp og niður og fjölbreytileikinn er þó nokkur, það eru proggkaflar, brjálaðir kaflar og „atmósferískir“. Þetta er ægimelódískt, ógnandi, spennandi og heldur þér á bríkinni allan tímann. ISIS, Opeth, Anathema, þetta eru nöfn sem renna hjá heilahvelum þó að framfærsla öll sé skuldlaust sveitarinnar. Þrátt fyrir að vera fyrsta plata sveitar er verkið einstaklega heilsteypt, flæðið frá fyrsta lagi til hins síðasta ansi tilkomumikið verður að segjast.

Kári Haraldsson kíkti á mig um helgina, drakk með mér kaffi og skrafaði og skeggræddi. Ég átti við hann spjall í Messenger-skjóðunni góðu fyrir tveimur árum, rétt eftir sigurinn góða, en þetta var í fyrsta sinn sem við settumst niður saman í raunheimum. Dagfarsprúður er hann, þokkinn góður og það er skýrleiki í augum. Maður finnur fyrir mikilli orku en að sama skapi ró. Það er allt hægt greinilega og þetta er framtíðarmaður eins og ég segi stundum. Yfir vanillusnúði frá Brikk ræðum við um kvikmyndir og tónlist, m.a. um fagurfræðina og þau stundum heftandi lögmál sem virðast hanga yfir þunga- og öfgarokki. Kári hefur þegar sýnt að hann verður seint vængstífður af slíku, sjá t.d. umslag plötunnar og tónlistina sjálfa sem ólmast yndislega innan þess geira sem hún er skilgreind út frá. Ég veit því að næsta plata verður „eitthvað“. Þess má þá geta að vinna við hana er þegar hafin enda eru þeir félagar komnir um borð hjá skilvirku merki erlendis. Tónlist Múrs er oft og tíðum drungaleg og myrk en eins og sjá má eru næstu misseri ekkert nema skjannabjört og skínandi.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: