Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 15. september, 2018

 

Skælt skuggarokk


The Third Sound er sveit, leidd af Íslendingnum Hákoni Aðalsteinssyni, og er All Tomorrow’s Shadows fjórða plata hennar

Hákon starfrækti síðrokkssveitina Lúna í kringum aldamótin, hefur leikið með Singapore Sling og er nú að spila með Brian Jonestown Massacre, hljómsveit ólíkindatólsins Anton Newcombe. The Third Sound hófst hins vegar sem sólóverkefni Hákonar er hann bjó í Róm og kom samnefnd plata út árið 2011. Síðustu þrjár plötur, þessi meðtalin, hafa svo komið út hjá Fuzz Club Records, en útgáfan gerir út frá London og einbeitir sér að síð-sýrurokki og hefur m.a. gefið út plötur Singapore Sling. Plöturnar sem um ræðir eru The Third Sound of Destruction and Creation (2013) og Gospels of Degeneration (2016). Hákon býr nú og starfar í Berlín, og er með fasta liðsskipan í sveitinni, en þeir Robin Hughes (gítar), Antonio D’Orazio (bassi) og Fred Sunesen (trommur) lögðu allir til krafta sína á plötunni sem var tekin upp síðasta vetur í borginni.

Geirinn sem The Third Sound tilheyrir fylgir nokkuð stífum, fagurfræðilegum reglum. Svartur er liturinn, Velvet Underground er Guð almáttugur og sólgleraugu, hljóðbjögun og tambúrínur staðalbúnaður. The Third Sound fetar þennan stíg nokkuð nákvæmlega, unnið er með téða áhrifavalda, sýrurokk sjöunda áratugarins og hart bílskúrsrokk þeirra tíma er með sanni á matseðlinum. Heyra má áhrif frá þýsku súrkálsrokki einnig, í níunda áratugar síð-sýrusveitum eins og Spacemen 3 og söngrödd Hákonar kallar m.a. fram meistara eins og Johnny Thunders og Nikki Sudden. Þessi þröngt skorni, stíllegi stakkur er þó síst til trafala og þessi fjórða plata Hákonar og félaga skilar mjög svo slípuðu, heilsteyptu verki. Nú kunna menn á dæmið, eru öruggir í eigin skinni, og þá er líka hægt að víkka rammann, þó ekki sé nema lítið eitt. Sjá t.d. „Half Alive“, naumhyggjulegt drunuverk með skemmtilega klingjandi gítartónum, sem koma fram eins og þeir séu í andnauð, líkt og upp úr kafi. Áhrifaríkt. Anton gamli Newcombe á þá gott innslag í síðasta laginu, „Photographs“. Newcombe fékk lagið sent í prufuformi en í stað þess að velta því eitthvað fyrir sér tók hann það á lofti, söng yfir og sendi um hæl. Lýsandi fyrir þann einstaka mann.

Plötunni er hægt að streyma í gegnum helstu veitur en einnig kemur hún út á vínyl, m.a. í bláum og grænum lit.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: