Geimvera Volruptus gerir hlutina eftir sínu höfði eins og sjá má.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. janúar, 2021.

Höfuð, herðar og tær

Eitt allra eftirtektarverðasta verkið úr heimi raftónlistarinnar á síðasta ári var breiðskífan First Contact með listamanninum Volruptus. Spáum aðeins og spekúlerum í kauða.

Það þrífast í raun furðumargir geirar í íslenska dægurtónlistarheiminum, svona þegar maður spáir í það. Við eigum þungarokk, tilraunatónlist, hipphopp og raf/danstónlist m.a. Og ekki bara einn, tvo listamenn í hverju. Í þessu síðarnefnda eru t.d. listamenn sem einbeita sér að „house“-tónlist, teknói, sveimi, „downtempo“ og alls kyns blæbrigðum þar á milli og útgáfufyrirtæki hérlend sem standa að útgáfum eru nokkur. Margir listamannanna eiga þá kjörlendur utan landsteina, einkanlega í Evrópu. Og vissulega fara flestir þessara listamanna lágt, Jói á bolnum þekkir þessi nöfn ekki og þau myndu seint troða upp á Baggalútstónleikum (eða hvað?). En starfsemin er engu að síður góð og gild, hróður hennar fyllir bæði hérlend dansgólf og erlend og er það vel.

Framboð á síðasta ári var með ágætum líkt og síðustu ár. Stöndugir listamenn sem hafa gefið út breið- sem stuttskífur af töluverðri elju undanfarin fimm ár eða svo (stundum lengur) héldu því áfram. Einn af þeim var Volruptus, íslenskur raftónlistarmaður sem býr og starfar í Berlín. Ég varð fyrst var við hann 2016 þegar út kom breiðskífa, samnefnd listamanninum. Slatti af tólftommum og stuttskífum hefur komið út síðan, allt gæðastöff. Þessi plata kom svo út í mars, á vegum bbbbbb, merki sem Bjarki nokkur rekur, annar mikilhæfur íslenskur raftónlistarmaður.

Volruptus er í miklum metum hjá innlendum hökustrjúkurum, fastagestur á árslistum hvers konar og ekki að undra. Það kom út dágóður slatti af frambærilegum plötum af svipuðum toga á síðasta ári en First Contact stóð samt upp úr, sú plata sem mest var rædd og oftast nefnd. Ég átti t.a.m. gott spjall við einn af meðstrjúkurum mínum ef svo mætti kalla í undanfara þessarar greinar þar sem við gerðum ágætis tilraun til að kryfja gripinn. Þessi félagi minn lagði áherslu á ferskleikann sem léki um plötuna, þá í þeim skilningi að hún væri í senn uppátækjasöm og skapandi innan þess ramma sem hún sannarlega er í. Þetta er teknó, vel sýrt á köflum, oft vel stállegið en skemmtilega gáskafullt líka, stundum þegar minnst varir.

Í bók sinni Energy Flash: A Journey Through Rave Music and Dance Culture skrifar popppenninn lipri Simon Reyolds frábærlega um hvernig danstónlist dalaði, að vissu leyti, er „hugsandi“ fólkið ákvað að hremma hana (les: rokkararnir). Raf/danstónlist sem þú gast hlustað á í hægindastólnum (Underworld, Future Sound of London, Aphex Twin, Autechre) bar um leið með sér vissa feigð, hvað geirann varðaði (að mati Reynolds). Volruptus skautar af miklu listfengi fram hjá þessu öllu og/eða nær að samþætta þetta. Hann stekkur upp úr stólnum, fettir sig og brettir eins og brjálæðingur, en sest aftur. Ef hann nennir. Grunnurinn er teknó, og það af evrópska taginu. Kalt, naumhyggjulegt og vélrænt. Grúvið er þarna en það er viljandi stirt. Sálarómurinn frá Chicago er lágvær á meðan belgískir „industrial“-taktar eru hærri. En, og hér er lykillinn að þessu öllu saman, það er hressandi fífldirfska og húmor sem setur mjög skemmtilegan blæ á alla plötuna. Hljómurinn frábær, mikil framsækni í hljóðnotkun, en Volruptus leyfir sér um leið aldrei nein leiðindi. Platan virkar í raun fyrir huga… og hönd (og fætur). Og það er brjálsemi hérna, skemmtileg. Geimveru- og vísindaskáldsöguþemað er nýtt í botn („We Are The Cyborgs“, „Butt Shakin’ Freaks“ eru lagatitlar sem segja sitthvað) og þú einhvern veginn veist aldrei almennilega hvað er handan við hornið. Volruptus sleppur á þann hátt undan auðveldum skilgreiningum, er háll sem áll að því leytinu til, og það er árangur. Um leið og þú verður útreiknanlegur, þá þarftu að fara að skoða þinn gang (nema þú sért AC/DC þ.e.).

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: