f

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 26. mars, 2016

Nýir tímar, nýjar aðferðir

Dúettinn asdfhg. er skipaður þeim Steinunni Jónsdóttur og Orra Úlfarssyni. Hér verður rýnt í tvær plötur hans, Steingervingur og Skammdegi auk þess sem fjallað verður almennt um tónlistarmennina og nýja tíma í upptöku-, útgáfu- og dreifingarmálum.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi síðasta haust að fá að taka þátt í dómnefndarstörfum fyrir Kraumslistann/Kraumsverðlaunin, en þau hafa verið nokkuð mikill akkur fyrir íslenska grastónlistarlist allar götur síðan þeim var ýtt úr vör fyrir átta árum síðan. Verðlaununum, svo ég vísi í opinbera síðu Kraums, „er ætlað að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra listamanna og hljómsveita með því að verðlauna og vekja sérstaka athygli á því sem er nýtt og spennandi – og þeim verkum sem þykja skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika“.

Eitt af því sem þótti tilefni til að vekja athygli á þetta árið var asdfgh., dúett þeirra Steinunnar Jónsdóttur og Orra Úlfarssonar. Á þeim tíma stóð þó – að því er virtist – Steinunn ein að tónlistinni og var málið allt hið dularfyllsta lengi vel. Kosturinn við Kraum er sá að þar er farið rækilega yfir alla íslenska útgáfu ársins og gildir þá einu hvort um efnislega (plötur, diskar sem hægt er að handfjatla) eða „óefnislega“ útgáfu er að ræða (plötur/lagasöfn sem koma eingöngu út í gegnum streymisveitur eins og bandcamp, Spotify, Soundcloud eða youtube). Á að giska var helmingurinn af því sem við fórum yfir af því taginu, eða í hið minnsta aðgengilegur á slíka vegu (nærfellt allar plötur koma nú út bæði efnislega og óefnislega).

Bandcamp er í miklu uppáhaldi hjá pistlahöfundi, hún er snyrtilega uppsett og listamennirnir hafa nokkuð frjálsræði í að sníða sínar undirsíður eftir eigin fagurfræðilega geðþótta. Þar lá platan Steingervingur og litlar sem engar upplýsingar að hafa um listamanninn. Sjö lög sem virtust fljóta út úr svefnrofa, svefnherbergis-lágfitl (e. „lo-fi“), tilraunakennd raftónlist og bjöguð, dreymin rödd yfir. Listamaðurinn var reyndar sagður frá Póllandi þannig að uppi voru kenningar um það að þetta væri ekki Íslendingur en hefði hins vegar lætt inn efnisorði eða „taggi“ sem tengdist Íslandi af því að Ísland væri svo hipp og kúl? Einn okkar dómefndarmeðlima greindi þó að umslagið innihélt stafina Nunniets sem er Steinunn aftur á bak. Eitt lagið heitir þá „geimstrákur“ og söngurinn og framburður á hinu ylhýra. En það var ljóst, þegar ákveðið var að veita þessum tónlistarmanni viðurkenningu, að það þyrfti að boða hann til verðlaunaafhendingar. Ég tók það að mér að senda skilaboð í gegnum bandcamp-síðuna með von um svör og fékk, seint og um síðar meir, netfang. Gátan var að leysast og eins og sjá má voru Sherlock Holmes og allir hans Watsonar í akkorðsvinnu! Hvað gerir maður ekki fyrir alvöru tónlist!?

Síðan þessi atgangur allur var hefur ýmislegt komið í ljós. Steinunn Jónsdóttir er stúlkan sem setti Steingerving inn á Bandcamp, sextán ára menntaskólamær. Það gerði hún í hálfgerðri rælni og var nánast búin að gleyma plötunni. Henti henni inn vansvefta eftir upptökulotu eina nóttina. Eftir að fjölmiðlar komust á snoðir um þetta og Steinunn var, algerlega óvart, kominn í sviðsljósið var tilkynnt um að asdfhg. væri í raun dúett hennar og Orra Úlfarssonar. Eftirleikurinn er eiginlega dásamleg sönnun á jákvæðri virkni gagnrýnenda, fjölmiðla og hinna svokölluðu hliðvarða, því að Kraumsdæmið var sem olía á eld. Græjur voru keyptar, hrært var í tónleika, síða uppfærð og meira að segja ný plata, Skammdegi, sem kom út síðasta janúar.

Áður en ég rýni í sjálfa tónlistina langar mig að tala aðeins um þetta breytta landslag í útgáfumálum. Jú, vissulega er gaman og gott að strjúka lófa eftir fagurlega skreyttum plötuumslögum og það er ekkert að fara. En „óefnisleg“ útgáfa er komin til að vera. Og mín spá er, ef jörðin heldur út í einhverja áratugi í viðbót, að útgáfa muni færast að miklum hluta þangað eftir því sem fram vindur. Kyndlar, pdf-skjöl, streymi o.s.frv … allt er á leiðinni inn í tölvurnar og það er í senn handhægara og umhverfisvænna. Þó að jú, vissulega sé það oft mun ópersónulegra og hreinlegra „gleymanlegra“ líka. En það er hægt að vinna með þessa hluti skapandi. Sjá t.d. bandcamp-síðu Steinunnar og Orra (asdfhg.bandcamp.com). En það sem meira er um vert, hefðum við fengið að heyra tónlistina, hefðu þau þurft að gera þetta á gamla mátann? Ef þau hefðu verið að stússast í þessu um og upp úr 1990 hefði kassetta verið málið. Fáir hefðu heyrt efnið og það þarf heilnæman slatta af nennu til að standa í slíku. Í dag geta góðir, gegnir og hæfileikaríkir tónlistarmenn komið hugðarefnum sínum út einn, tveir og bingó. Og mun fleiri eiga a.m.k. kost á að heyra herlegheitin.

En hvað með tónlistina? Ég væri ekki að skrifa þetta ef hún hefði ekki eitthvað við sig og það er hún sem skiptir mestu þegar öllu er á botninn hvolft. Fyrri platan, Steingervingur, ber með sér þennan svefnrofablæ og í henni er eitthvert „x“ eins og keppnin góða snýst um, eitthvert „mojo“, eitthvað sem ekki hægt er að koma í orð. Það er eitthvað í þessu sem fékk mig og okkur til að sperra upp eyrun. Ég man að ég sagði við samdómara mína. „Þetta er flott … en það er líka eins og þetta sé hálfklárað“. Og ég var ekki endilega að meina það sem neikvætt. Hráleikinn var á meðal þess sem heillaði, en þetta segir líka ýmislegt um að þessi „nýi“ miðill, netið, leyfir fólki að ganga lengra í að henda hlutunum út.

Skammdegi er aðeins öðruvísi en Steingervingur, ber m.a. með sér ákveðna þróun og þroska. Ögn bjartari, skýrari og söngurinn er t.d. greinilegri og blíðari. Eins og Steinunn sé að þora að stíga fastar fram sem söngkona. Tónlistin er draumkennt og tilraunakennd eins og áður, bjöguð og teygð, og afstöðulega er smá Ariel Pink í þessu, jafnvel smá Jófríður Ákadóttir. En fyrst og síðast mjög svo asdfhg.-leg.

Bara nafnið á dúettinum er yndislegt og undirstrikar þessa nýju nálgun í raun. Stafaröðin „asdfgh“ er sú algengasta er fólk slær inn „eitthvað“ í flýti á lyklaborðið sitt. Steinunn og Orri setja svo smá snúning á þetta með því að setja h-ið á undan g-inu. Hvort sem það var viljandi eða ekki? Alltént mjög svo hæfandi fyrir tónlistartíma þar sem hlutir eru farnir að gerast hraðar og hispurslausar en áður. Til bölvunar stundum en í þessu tilfelli til mikillar blessunar.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: