Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 1. apríl, 2023.

„Hugsað um fortíðina“

Meistaraverk íslensku dauðarokkssveitarinnar Cranium, Abduction, er komið út formlega á streymisveitunni Spotify. Endurhljómjafnað meira að segja og tiltækið einkar mikilvægt verður að segjast.

Dauðarokkið barst til lands elds og ísa árið 1990 eða þar um bil. Hljómsveitin Sororicide sigraði í Músíktilraunum árið 1991 (sem Infusoria) og ári síðar fylltust Tilraunirnar af slíkum sveitum. Sororicide gaf svo út plötuna The Entity seint sama ár, Cranium gaf út kassettuna Abduction árið 1993 og Strigaskór nr. 42 gáfu út plötuna Blót árið 1994. Skömmu síðar lagðist senan af. Ég nefni líka safnplötuna The Apocalypse (1992). Og er þá allt upp talið að heita má hvað útgáfu á íslensku dauðarokki varðar á þeim tíma er bylgjan reið yfir.

Tónleikahald var hins vegar með miklum blóma á þessum árum og eins og segir ruddi Sororicide brautina með margvíslegum hætti. Og þær þrjár sem ég hef nefnt hér flugu hæst. Sororicide með sitt myljandi þunga dauðarokk og Strigaskór nr. 42, sem tók fleiri stíllegar kollsteypur, endaði í einstöku, þjóðlagaskotnu dauðarokki sem finna má á nefndri plötu hennar.
Svo er það Cranium. Sveitin tók þátt í Músíktilraunum 1992 og 1993 en seinna árið var sveitin skipuð þeim Árna Sveinssyni söngvara og Agli Tómassyni gítarleikara (sem komu úr Condemned), Bjarna Grímssyni trymbli (áður í Inflammatory) og þeim Ófeigi Sigurðssyni, bassaleikara og söngvara, og Sigurði Guðjónssyni gítarleikara, sem voru upprunalegir meðlimir. Spilamennska þeirra í Músíktilraunum það árið var ekkert minna en rosaleg, bandið á háflugi, og í maí það ár var fjögurra laga kassetta tekin upp í Hljóðrita á þremur dögum og hún gefin út á kassettu undir nafninu Abduction. Þetta goðsagnakennda verk, sem fangar þessa ótrúlegu sveit gjörsamlega á hátindinum, kom nýverið út á Spotify þar sem Arnar Guðjónsson, bróðir Sigurðar (og meðlimur í Inflammatory, Condemned og Sororicide) hefur hljóðblandað og hljómjafnað upp á nýtt (og já, þetta „sándar“!). Einnig er búið að flikka aðeins upp á umslagið vegna streymisveitna og millistefinu „… of guilt and remorse“ er sleppt. „Formerly Weakminded“ heitir þá „Weakminded“ núna. Auk sveitarinnar léku inn á verkið þau Hlynur Aðils (hljómborð) og Vala Gestsdóttir (fiðla).

Abduction er meistaraverk. Þetta er hreinlega svakalegt dæmi og ekki leiðinlegt að heimsækja það á nýjan leik, sem ég geri reyndar reglulega. Hljómsveitin var þarna orðin einstaklega þétt og tónlistin er hreinlega „ill“. Keyrslan er fullkomlega linnulaus út í gegn og ég hef talað um nánast svartþungarokkslegan blæ á lögunum, bæði vegna kuldans og grimmdarinnar sem lekur af þeim en líka vegna magnaðs söngs Ófeigs sem nýtir sér „nornaöskurs“-tækni í bland við hreina brjálsemi. Dýpt Árna er ógurleg og samsöngur félaganna er glæstur í öllum tilfellum. Verkið hefst með titillaginu, Árni setur tóninn og rétt á eftir kemur Ófeigur, Offi, hljómandi eins og hann sé með djöfulinn á hælunum. Tónlistin er stórkostleg. Hugvitssamlegar taktskiptingar, hægt á tempói og því hraðað og hljóðfæraleikur allur með hreinum ólíkindum. „Introvert“ byrjar þannig að manni rennur kalt vatn milli skinns og hörunds. Gítarinn í inngangsstefinu vísar á sama tíma í Ham og Sonic Youth áður en allt fer á fleygiferð. Þyngsli í bland við fumlausa keyrslu og samsetning alls hérna, hugmyndaflugið, áræðið og já, listfengið, gerir mann orðlausan.

Sveitin er með Fjasbókarsetur þar sem hægt er að nálgast myndir og fleira. Það er mikilvægt að tónlist sé ínáanleg – sérstaklega ef gæðin eru svona – og karmastig heimsins hækkaði um nokkur feit stig er þessi snilld datt inn á veiturnar. Njótið!


 

3 Responses to Rýnt í: Cranium

  1. Hvernig voru viðbrögðin við opinberri útgáfu íslensku death metal hljómsveitarinnar Cranium, Abduction, á streymipallinum Spotify?

  2. Hvernig þróaðist íslenska dauðarokksenan á tíunda áratugnum?

  3. Hvað gerir plötu Cranium sem heitir Abduction álitin goðsagnakennd verk?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: