Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 13. maí, 2017

Jóðlandi fallbyssur í engum sokkum

Úrslitin í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fara fram í Kænugarði í kvöld. Tuttugu og sex þjóðir munu heyja með sér söngvænt stríð sem sameinar þó fremur en sundrar. Gerið ykkur klár fyrir reiðarinnar býsn af rugli, snilld, fegurð, hlátri, gráti en fyrst og síðast sturlaðri gleði.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, „Júróvisjón“ í almannatali, er fyrir alla muni skemmtileg. Hvorki meira né minna. Gleði, stuð, flipp og fjör. Jú, stundum heillandi söngur, mögnuð framkoma og grípandi laglínur líka. En keppnin er blanda af þessu öllu og er fyrirbæri sem heldur áfram að heilla og hneyksla ár eftir ár. Já, þið sem þurfið að æmta og skræmta yfir keppninni ár hvert þurfið jafn mikið á henni að halda og við hin . Ef ekki meira. Líkt og flestir (já, líka þú sem þóttist hafa horft með „öðru auganu“) hef ég setið límdur við skjáinn í vikunni, þó ívið spenntari á þriðjudaginn.

Svala okkar komst ekki upp úr undanriðlinum og ég var raunverulega svekktur. Ekki „venjulega keppnissvekktur“ heldur raunverulega. Því að lagið var gott og frammistaðan líka. Ég hef fylgst með fjöldanum öllum af íslenskum lögum keppa sem mér hefur fundist rétt ná meðallaginu, ef þá það, en þannig var það bara alls ekki í þessu tilfelli. Lagið var virkilega gott, haganlega samið með öflugu, epísku viðlagi, nægilega tilfinningaþrungið og nægilega grípandi. Jafnvægið var hárnákvæmt. Flutningur Svölu – og þá sérstaklega í Kænugarði – var hnökralaus. Á þriðjudaginn mildaði hún framkomuna, brosti meira, daðraði við myndavélina og einfaldlega negldi þetta. Já, ég leyfi mér að vera hvumsa yfir skilningsleysinu.

Annars hefur verið kostulegt að fylgjast með undankeppninni. Þið þekkið þetta, maður situr með fjölskyldu og vinum og allir hafa skoðun á því sem fram fer. Alls konar grallaragrín í gangi og á þessum tíma árs hafa allir skoðun á tónlist, hvort sem það er fúli kallinn í sjoppunni eða amma þín. Svíarnir tóku þetta með afskaplega „sænsku“ lagi, ég var ánægður með Belgíu sem fór út að þolmörkum tilraunamennskunnar en Finnland mislas þetta með einu því þunglyndislegasta sem ég hef séð – meira að segja fyrir Finnland! Portúgal, ó já, krúttlegt var það en svekktastur var ég með Svartfjallaland. Hélt að fléttugaurinn héti Snarko en ekki Slavko og fyrir slíkt nafn hrópaði ég yfir stofuna að hann ætti að fara rakleitt áfram! Fimmtudagurinn var skemmtilegri en athyglisvert að sjá hverjir fóru áfram. Ísrael, Austurríki og Noregur var drasl. Danmörk og Holland í miðjumoðinu.

Ég var hins vegar ánægður með restina og viti menn, allt voru það lög fyrir austan tjald. Hvíta-Rússland var yndi, slavnesk útgáfa af White Stripes, viftuknúinn bátur og indjánaóp. Króatískur hommi sem hatar víst homma og leit út eins barnabarn Demis Roussos og Pavarotti. Rúmenía með jóðl, rapp og fallbyssur, Ungverjaland á þjóðlegum nótum og hittu beint í mark þannig og síðan búlgarski smástrákurinn sem var bæði „hipp og kúl“. Svo er fólk að tala um að þessi keppni sé glötuð!?

Hver vinnur í kvöld? Erfitt er um slíkt að spá. Ég og „Snarko“ ætlum hins vegar að njóta þess að horfa, hneykslast og gleðjast. Með báðum augum.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: