Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 20. janúar.

Upp úr slímugri gröf

Plata hinnar goðsagnakenndu Graveslime, Roughness and Toughness, var endurútgefin með pomp og prakt á síðasta ári. Hér verður litið til arfleifðar og áhrifa þessarar sveitar.

Ég man þetta svo vel. Menningarnótt í Reykjavík 2002. Ágúst. Ég var á röltinu fyrir Morgunblaðið og tók hina og þessa viðburði út. Graveslime, skipuð þeim Alla (Aðalsteinn Möller, bassi og söngur), Kolla (Kolbeinn Hugi, gítar og söngur) og Óla (Ólafur Steinsson, trommur), hafði verið með bestu tónleikasveitum frá stofnun 2001, drynjandi þungi í anda Melvins og annars eðjurokks („sludge“) og hljómurinn á tónleikum eins og veggur. Slímugur veggur. Á þessu menningarrölti mínu varð mér gengið fram á sveitina í plötubúðinni Japis, Laugavegi 13. Þar drundi í okkar mönnum eins og enginn væri morgundagurinn en ég komst illa inn og starði því frá götunni. Þar sá ég í bakið á Óla trommara sem var nakinn utan fátæklegrar skýlu. Barði hann húðir af öllum lífs og sálar kröftum svo undir tók í götunni. Ég var orðlaus. Þvílíka hljómsveitin, þvílíki krafturinn, þvílíka fegurðin!

Árið 2003 kom svo platan Rough­ness and Toughness út á forláta geisladisk. Ég nota orðið „forláta“ ávallt yfir glæsiendurútgáfur á vínil en þessi geisladiskur er það einnig. Í pappírsumslagi og með þessari líka mjög svo svölu hönnun og mynd. Innihaldið fangað, drullan og slýið en líka grínaktugheitin sem bandið bjó heldur en ekki yfir. Graveslime var dálítið utan sena er hér var komið sögu, harðkjarninn var að snúast niður og skammt í „hressu“ bylgjuna (Retro Stefson, Jeff Who, Sprengjuhöllin). Sveitin var ein á stangli, einu Íslendingarnir sem sigldu eftir þessum drulluga árfarvegi sem lýst er í upphafi.

Sveitin hætti eftir útgáfu plötunnar og í kjölfarið tók að byggjast upp költ í kringum hana. Platan nefnd á samfélagsmiðlaþráðum reglulega, kallað eftir endurútgáfu og tilraunir til youtube-upphleðslu einhverjar.

Fólk rak því í rogastans á síðasta ári er fréttist að platan myndi koma út á nýjan leik. Og það á forláta vínil! Og glæsilegur er hann. Vel þykkt, opnanlegt umslag og upprunalegu hönnuninni vel fylgt (Kristján Freyr Einarsson). Umslagið er tilklippt þannig að í sólu sést og „nærbuxurnar“ stöndugar. Vínillinn sjálfur er litaður, önnur platan rauð og hin græn og endurspegla þær grautinn miður geðslega sem prýðir umslagið. Snilld!

Allt var sett í gang kynningarlega vegna endurútgáfunnar, bolir prentaðir, sérstök piparsósa framleidd (og þættir um sósuna), grafarslím o.s.frv. Í boði var að styrkja útgáfuna beint í gegnum Karolina Fund-­síðuna og veglegasta upphæðin gaf velgjörðarfólki færi á að dvelja eina nótt í opinni gröf með plötuna á hæsta styrk yfir.

Það er þægilegt að heimsækja plötuna á nýjan leik. Ljúft, gæsa­húðar­myndandi. Hún var tekin upp af Tim Green (Melvins, Bikini Kill, Unwound t.d.) og innihaldslega er hún æði fjölskrúðug. Graveslime var þekkt fyrir miskunnarlausa tónleika en það eru alls kyns litir á plötunni. Lokalagið „Eborg Eboglesson“ er eftir Kolla og leikið á gítar eingöngu, værðarleg vögguvísa fyrir svefninn. Hið ellefu mínútna „American Sleeper“ býður upp á keyrslu í bland við hæglætiskafla, hvar melódía og hvíslandi söngur ráða ríkjum. Það er vissulega beljandi barningur á plötunni („The Punch Fucking Drunk and the Fucking Goat“, „Yo My Lord What’s Kicking in San Francisco“) en nokkurs konar ballöður eru þarna líka. „362 Days until Christmas“ hljómar eins og lag sem Kurt Cobain hefði samið eftir næturlanga hlustun á Slint.

Útgáfutónleikar voru svo haldnir í ágúst síðastliðnum eða „útfarartónleikar“ öllu heldur (flettið upp „Karolina Fund Graveslime“ til að sjá ansi litríka sögu sveitarinnar). Þar var ég ásamt tugum annarra karla á fimmtugsaldri og við tókum út harðkjarnaderhúfurnar okkar af tilefninu. Yngra fólk var þarna líka, náttúrlega, enda platan sígild og með költstöðu eins og upplýst hefur verið um. Alvörutónlist lifir. Handan grafar og dauða.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: