Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. apríl, 2021.

Neðanjarðar norðan heiða

MBS (Mannfólkið breytist í slím) er tónlistarsamlag frá Akureyri sem hefur verið starfrækt í rösk tíu ár og staðið að ýmsum útgáfum og uppákomum. Lítið hefur verið ritað um sögu þessarar samsteypu þar til nú.

Tildrög þessa pistils eru sérstök. Þannig er mál með vexti að piltur að nafni Ingi Jóhann Friðjónsson setti sig í samband við ofanritaðan vegna nýrrar plötu með sveitinni Á geigsgötum. Rafpóstsspjall hófst í kjölfarið hvar saga téðs tónlistarsamlags var undir. Ég hafði séð þetta nafn endrum og sinnum en vissi lítið og var forvitinn.

Draumar hverfa skjótt , plata Á geigsgötum, ku vera 15. útgáfa MBS. Hljómsveitin var upphaflega sólóverkefni Inga en þróaðist út í hljómsveitarverkefni og platan hefur verið í vinnslu í fimm ár. Mannskapurinn sem kom að plötunni tilheyrir flestallur ýmsum sveitum sem hafa starfað undir merkjum MBS. Völva, Hindurvættir, Darth Coyote, Brák, Buxnaskjónar o.fl.

Í bréfaskiptum mínum og Inga kom ýmislegt merkilegt í ljós. Ég fór að hugsa um hvernig senur þrífast utan höfuðborgarsvæðisins. Slíkt er hægt, þó að í míkrólíki sé vegna eðlilegrar mannfæðar. Stundum koma gjöful ár sem standa kannski með einum til tveimur einstaklingum sem eru virkir. Vélin er viðkvæm, getum við sagt, og lítið má út af bregða þegar framkvæmdir standa og falla með nokkrum eldsálum. MBS virðist líka hafa verið nokkuð sjálfbært fyrirbæri og starfað innan Akureyrarsvæðisins nánast eingöngu. MBS-liðar stóðu t.d. fyrir grasrótartónleikum í Hofi nokkrum sinnum þótt ekki hafi það verið árlegur viðburður.

Mesta orkan í MBS var á árunum 2010-2015 þegar liðsmenn voru ca. á aldrinum átján til tuttugu og þriggja. Mikið var spilað í Populus Tremula sem varð síðan að Kaktus sem var í kjallara Listasafnsins á Akureyri en einnig voru reglulega tónleikar í æfingahúsnæði. Eftir 2015 fór hópurinn svo að tvístrast, eins og gengur. Margir fóru í nám suður, aðrir í tónlistarnám til útlanda og einhverjir aðlöguðust senunni í Reykjavík. Þeir sem voru eftir héldu þó enn æfingahúsnæðinu (Gúlaginu), sem enn er starfrækt. Ingi tók fyrir það að MBS væri eitthvert aðal í umræddum samskiptum, sagði það orðrétt vera „aðeins hluta af neðanjarðarsenu Akureyrar og höfum við verið viðloðandi ákveðin æfingahúsnæði og kjarna og hljómsveitirnar margar innræktaðar. Því myndi ég ekki segja að þetta sé lífæð neðanjarðarsenu Norðurlands en við erum að gera okkar besta til að halda starfsemi hérna við og leyfa yngri hljómsveitum að fá vettvang til að spila og koma sér á framfæri.“ Með þetta að markmiði hefur MBS m.a. staðið fyrir opnum degi í Gúlaginu og hefur hann farið fram árlega síðan 2018. Hátíðin fer fram í eða við æfingahúsnæðið á Oddeyri.

Ingi er að sönnu auðmjúkur þegar hann neitar að taka of mikinn heiður af virkninni í höfuðstað Norðurlands. Tónlistarsaga Akureyrar er merk og kollegi kær, Skapti Hallgrímsson, ritstýrði efnismiklu blaði sem tengdist sýningunni Tónlistarbærinn Akureyri síðasta sumar. Í blaðinu er heill heimur sem hefur í raun ekki ratað „hingað“ suður nema að litlu leyti. Útþrá er nefnilega eitt, að vera sjálfum sér nægur er eitthvað allt annað. Áhersla MBS á að rækta heimagarðinn fyrst og fremst er sennilega skynsamleg, í stað þess að vera að ana út um allar trissur. Svo oftlega flaska menn á því að treysta almennilega grunnstoðirnar áður en byrjað er að hugsa stærra og meira. Mestu gildir þó, líkt og hjá öllum viðlíka hópum, að búa til skjól fyrir listsköpun og styðja þá sem hana stunda. Lýðheilsa landsmanna á allt undir slíku, það er bara þannig.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: