Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 2. september, 2017

Þögnin endurheimt

Hljómsveitin VAR á tildrög sín hjá Júlíusi Óttari nokkrum og fljótlega slóst eiginkona hans Myrra Rós í lið með honum. Í dag er þetta hljómsveit og nýjasta platan, Vetur, kom út fyrir stuttu.

Júlíus rekur söguna til upphafsins 2013 og eftir að Myrra tók sér sæti við hlið hans varð VAR að rafbundnum – svona meira og minna – dúett. Lágstemmdar, „ambient“-legnar stemmur lágu þar til grundvallar og fylltu mjög svo ágæta sex laga plötu sem út kom 2014, samnefnd dúettinum. Sú plata kom út á þýsku merki (Beste Unterhaltung!) og á Evróputúr sem farinn var í kjölfarið bættist Egill, eldri bróðir Júlíusar, í hópinn. Meðlimir teknir að tínast inn, einn af öðrum. Haustið 2014, á Airwaves, gengu þeir Arnór Jónasson (gítar) og Andri Freyr Þorgeirsson (trommur) í bandið. Upphaflega var ætlunin að hljóðfæri þeirra kæmu varlega inn í hljóðmyndina en þess í stað var kúvent og magnarar allir hækkaðir upp í ellefu. Þessi útgáfa VAR fær m.a. að hljóma á Vetur, plötunni sem er ástæða skrifanna.

Vetur kom upprunalega út í Japan á síðasta ári en sveitin hlóð henni upp á Bandcamp-síðu sína í liðnum apríl. Þar er að finna allt útgefið efni VAR til þessa, plötuna frá 2014, tveggja laga skífuna Kafbátur og svo fjögur nýjustu lögin. Röðunin er glúrin, í upphafi má heyra sprengikraftinn sem nýjasta útgáfan býr yfir en svo erum við leidd að værðarlegri smíðum sem prýða fyrstu plötuna.

Eins og lög gera ráð fyrir þarf að sinna kynningarmálum að einhverju leyti og vefsíða sveitarinnar býr yfir ýmislegu góðgæti. Þá er og myndskeið og myndbönd að finna á youtube, m.a. eitt við lagið „Varmá“ þar sem sjá má orgelsmiðinn Björgvin Tómasson á flandri í kringum hina fallegu Stokkseyri þar sem Júlíus og Myrra búa. Þannig er mál með vexti að VAR spilaði í Orgelsmiðjunni hans og komu æstir áhorfendur að þeim eftir tónleikana og langaði til að búa til myndband. Svo varð, og var það skotið á einum degi.

Á Fésbókarsíðu sveitarinnar sést og að það er verið að taka upp nýja tónlist, myndir og myndskeið frá því í sumar bera þess merki. Ekkert hefur hins vegar verið látið uppi með það enn hvert það efni mun skila sér. Myrra Rós, sem er sólólistamaður líka, er þá með nýja plötu uppi í erminni, en síðasta plata hennar, One Amongst Others (2015) var framúrskarandi. Og þess fyrir utan hafa þau hjúin verið að bisa við að standsetja hús sem þau eiga í þorpinu listvæna, Stokkseyri. Svei mér þá, það er einhver andagift þarna suður með sjó sem er fönguð fallega af Júlíusi, Myrru og meðreiðarsveinum…

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: