Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. desember.

Og bjöllurnar glumdu …

Shane MacGowan, söngvari Pogues og skáld, lést 30. nóvember síðastliðinn, 65 ára að aldri. Hér verður farið yfir lífshlaup þessa magnaða manns sem sigldi af krafti milli skers og báru alla tíð.

Æ elsku krúttið mitt / Það eru jólin / Við skulum þrauka þau / Og þykjast eins og hin.“ Svona hljóðar ein línan úr laginu „Fairytale of New York“ eftir að Bragi Valdimar Skúlason hafði snúið textanum á hið ylhýra. Lagið komið með titilinn „Saga úr Reykjavík“ og var það flutt í Ríkissjónvarpinu árið 2002 af hljómsveitinni Lón (ekki sú sem starfrækt er í dag. Og er hún reyndar kölluð Lone á ruv.is). Söngvarar voru Ragnheiður Gröndal og Sigurður Guðmundsson og flutningurinn hinn besti.

Upprunalega smíðin kom hins vegar út árið 1987 og var flutt af Pogues, söngvarar þau Shane MacGowan og Kirsty McColl sem nú syngja lagið saman á himnum en McColl lést voveiflega af slysförum árið 2000. MacGowan lést svo fyrir einni og hálfri viku, þrotinn að lífsins kröftum.

Lagið er ótrúlegt og er farið að toppa æ fleiri lista yfir bestu jólalög allra tíma. Falleg og gæsahúðarmyndandi smíð sem rennur beint ofan í hjörtu undirmálsfólks. Persónur Shanes og Kirsty eru þesslegar en þannig var því líka háttað með Shane í lifanda lífi. Hann lifði eins og blómi í eggi framan af en þegar pönkið brast á umfaðmaði hann það af lífi og sál og ferðaðist eftirleiðis um skúmaskot tilverunnar.

Pogues var lýst sem sambræðingi af Sex Pistols og Chieftains er hún kom fyrst fram á sjónarsviðið og þessi samsláttur var gull. Engin tónlist er nær okkur en alþýðu- og þjóðlagatónlist, tónlistin „okkar“. Og frumkraftur pönksins verður aldrei toppaður. Tveir fyrir einn með tilliti til ærlegrar tónlistarsköpunar sem er sönn, hrein og áhrifarík. Þvílíkt skapalón!

Pogues hafði þannig áhrif í tvær áttir, annars vegar opnaði hún augu jaðarrokkara og pönkara fyrir því að hægt væri að framreiða þjóðlagatónlist á lifandi, kraftmikinn og hráan hátt um leið og sparkað var duglega í rassinn á þjóðlagatónlistarmönnunum sjálfum. Persóna MacGowans átti ríkan þátt í vinsældum Pogues og sá hann til þess, vitandi og óafvitandi, að eftir henni var tekið, hvort heldur sem var á tónleikum eða á plötum. MacGowan er frummynd „týndu sálarinnar“, hæfileikamaður sem var ofurseldur innri djöflum sem ytri. Eins konar pönk-Bukowski og sukksamur með afbrigðum. Frá fyrstu tíð gældi hann við stút og önnur efni af miklum móð en náði þó að halda sér nokkurn veginn á mottunni framan af ferli Pogues. Þannig eru fyrstu þrjár plötur sveitarinnar allar afbragð þótt ólíkar séu og á þessum plötum má finna perlur eins og „A Pair of Brown Eyes“, „Dirty Old Town“, „Streams of Whisky“ og „Sally MacLennane“. Og ljóst var að MacGowan var hið burðugasta skáld, dufl hans við myrkar hliðar mannlífsins þótti heillandi, þótt hið skáldlega væri óþægilega nærri hinu raunverulega. Okkar besti yfirgaf sveitina eftir Hell’s Ditch (1990) og var síðasta tónleikaferð hans með sveitinni skrautleg þar sem hann drapst iðulega áfengisdauða uppi á sviði, oft þegar tónleikarnir voru nýhafnir. Óstarfhæfur, þrútinn af drykkju og djöfulgangi.

Áhrif Shanes MacGowans eru hins vegar ómæld. Jú, lifnaðurinn var með ólíkindum en Bakkus bróðir kom snilldinni ekki á, hún kom úr ósködduðum kjarnanum. Að magna upp alla þessa snilld, þrátt fyrir fíknihlekkina, í því felst mennska Shanes MacGowans. Blessuð sé minning hans.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: