ggghhh

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 5. nóvember, 2016

Þegar gæsahúðin hríslast…

Iceland Airwaves-hátíðin er á fullu skriði þegar þetta birtist lesandi góður, dagarnir hafa verið fullir af tónlist sem breiðir sig út um allan bæ, og troðið er upp á stórum sviðum sem og í kústaskápum.

Það jafnast ekkert á við það og þegar gæsahúðin hríslast um allan líkamann. Ég er ekki að tala um það þegar hún sprettur fram á handleggnum, hárin rísa og þú færð vellíðunartillfinningu í tvær, þrjár sekúndur. Nei, ég er að tala um þessa sem byrjar einhvern veginn í hvirflinum, leiðir niður hausinn, bringuna, búkinn, sprettur fram í báða handleggi og þýtur líka niður í fótleggi þannig að maður stendur bókstaflega á stilkum.

Þetta gerðist er Julia Holter, hin mjög svo hæfileikaríka tónlistarkona frá Los Angeles, lagði í annað lag sitt í Listasafni Reykjavíkur á fimmtudagskvöldið. „Feel You“ er og opnunarlagið á fjórðu hljóðversplötu hennar, Have You in my Wilderness, sem toppaði marga árslistanna sem besta plata síðasta árs (þar með talinn minn). Það þarf því ekki að orðlengja um þann feng að fá hana upp að landi elds og ísa, alla leiðina frá hinni sólríku Kálhorníu. Settið hennar var dásemd og meðreiðarsveinar og -meyjar á sviði studdu vel við okkar konu.

Airwaves hófst formlega á miðvikudaginn en upptakturinn er búinn að vera lengri. Hátíðin er farin að teygja sig í báða enda, fólk getur eiginlega ekki beðið eftir því að hrinda henni í gang og endurómurinn er langur. Er það vel. Hátíðin hefur fyrir margt löngu markað sér viða- og veigamikinn sess innan íslenskrar tónlistarmenningar og er marglaga í mætti sínum. Þetta er tækifæri fyrir íslenska listamenn að láta ljós sitt skína, sem þeir gera í hundraðatali á enn fleiri tónleikum úti um borg og bý. Erlendir listamenn koma þá í heimsókn með nýja sem gamalsiglda strauma; nær óþekkt bönd sem verða risastór eftir eitt misseri eða þá lifandi goðsagnir. Og allt þar á milli. Allt þetta og fleira til er í gangi á Airwaves-hátíðunum. „Bransinn“ fær þá tækifæri til að líta upp úr tölvupóstunum, treystir bönd í mannheimum og fólk skiptist á hugmyndum, kynnist og hlær. Hátíðin í ár er þá merkilega kvenlæg og það er dásamlega hressandi því að hlutföllin þar eiga það til að vera verulega skökk. Warpaint, Kate Tempest, Björk, PJ Harvey – öll stærstu nöfnin í ár eða svo gott sem voru af estrógenættinni.

Fimmtudagskvöldið byrjaði annars á Laundromat Cafe af öllum stöðum, einn af þeim fjölmörgu sem bjóða upp á tónlist utan formlegrar dagskrár og þar létu Jónas Sigurðsson og Ritvélar framtíðarinnar gamminn geisa sem aldrei fyrr. Stóðu uppi á borði að því er virtist, gíndu yfir salnum sem var sneisafullur og dældu sinni upplyftandi tónlist í gesti sem enginn væri morgundagurinn. Mettur gekk ég síðan yfir í Listasafnið og sá þar eina af vonarstjörnum íslenskrar tónlistar, hina yndislegu Jófríði Ákadóttur eða JFDR, leika sólóefni. Meiriháttar alveg, dreymandi tónlist og tilfinningarík. Og ekki alltaf gefin, á völdum köflum er æðislegur níunda áratugs andi yfir; gítarkaflar minna helst á sveimspretti Clannad eða b-hliðar U2 í kringum Unforgettable Fire, er meistari Brian Eno sá til þess að sú ektasveit tæki á sig handanheimsáru. Ég er að segja ykkur það! Snilld. Það var valin maður í hverju rúmi uppi á sviði með Jófríði, þar á meðal upptökustjóri hennar og Íslandsvinur Shahzad Ismaily en einnig þeir Magnús Trygvason Eliassen (trommur), Tumi Árnason (saxafónn o.fl.) og Indriði Ingólfsson (gítar).

Er Jófríður steig af sviði tók Holter við og gæsahúðin helltist yfir, eins og áður segir. Ég gekk sáttur út í nóttina og ætla að sverma eftir frekari gæsahúð í kvöld. Heimtur hafa nefnilega verið góðar.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: