Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 10. febrúar, 2018

Söngvabálið er svo bjart

Hér verður fyrri skammtur þeirra laga sem keppa um sæti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva settur undir smásjána.

Ég hata ekki Söngvakeppnina. Ég elska hana. Sem tónlistaraðdáandi fæ ég bara tækifæri einu sinni á ári til að hnotabítast um viðlög og vers við Jóa á bolnum, ömmu mína og pitsusendilinn. Allir hafa skoðun, öllum finnst þetta hræðilegt í upphafi en svo eru allir komnir saman í eina sæng undir rest, hvetjandi sitt fólk áfram, sem er pottþétt með besta lag í sögu keppninnar til þessa. Við erum auk þess að fara að mala keppnina úti, annað eru svik Austantjaldsmafíunnar. Samfélagsleg virkni keppninnar sem allir hata að elska og elska að hata er dásamleg. Hér er mín sýn á lögin sex sem verða flutt í kvöld.

Ég mun skína
Höfundar lags: Þórunn Antonía Magnúsdóttir og Agnar Friðbertsson
Höfundur texta: Þórunn Antonía Magnúsdóttir

Flytjandi: Þórunn Antonía Magnúsdóttir

Þórunn er hæfileikakona en ég er ekki að tengja við þetta lag. Eins einfalt og það gerist; Þórunn leggur boðskapinn upp í versinu og svo er farið í orkuviðlag þar sem hún „skín og ekkert stöðvar hana“. Hún syngur þetta vel og röddin er t.a.m. rífandi tilfinningarík í öðru versi. Lagið sem slíkt er fremur dauflegt, helst að fínasta trommuforritun gefi því kraft. Og það er það sem vantar hérna, meiri kraft einhvern veginn, meiri bombur. Lagið er nefnilega í nákvæmlega þannig sniði en það er eins og eitthvað hafi gloprast í útsetningunni.

Ég og þú
Höfundar lags: Sólborg Guðbrandsdóttir, Tómas Helgi Wehmeier og Rob Price
Höfundur texta: Davíð Guðbrandsson

Flytjendur: Sólborg Guðbrandsdóttir og Tómas Helgi Wehmeier

Þekkilegasta smíð sosum, lágstemmd ballaða sem hækkar lítið eitt undir restina. Maður heyrir í lágværum kassagítarstrokum, strengjum og píanói í fjarska. Glúrin brú undir restina (eftir mínútu tvö) brýtur ágætlega upp annars eintóna flæði – sem er furðu líflaust þegar allt er saman tekið. Það er eitthvað bogið við þetta allt saman, það er eins og það sé búið að stilla sæmilega upp en úrvinnslan er afskaplega máttlaus. Verst er að það heyrist nánast ekkert í Sólborgu út lagið og dúetta-konseptið því engan veginn að gera sig. Sjáum til hvað gerist í salnum, það er hægt að bjarga ýmsu með innblásnum flutningi.

Heim
Höfundur lags og texta: Þórunn Erna Clausen
Flytjandi: Ari Ólafsson

Ég er að fletta því upp á internetinu hvort Ari sé mögulega fjarskyldur ættingi meistara Josh Groban? Skyldi þó aldrei vera. Uppleggið er a.m.k. þannig; hvort heldur í söng, lagasmíðum eða texta. Þetta er klassískt söngvakeppnisform hérna, róleg og hvíslandi byrjun, þar sem stuðst er við píanó og svo endar þetta þremur mínútum síðar í algerri flugeldasprengingu. Líkt og með Groban eru menn ekkert feimnir við uppskrúfaða væmni (það fylgir þessu svæði) og eftir miðbikið flýgur Ari upp í eina almögnuðustu falsettu sem heyrst hefur í keppni þessari. Það er eitthvað við þetta, eldri söngvakeppnisáhorfendur eru líkast til fallnir fyrir drengnum, sjáum til með snapp-kynslóðina.

Kúst og fæjó
Höfundar lags og texta: Heimilistónar (Elva Ósk Ólafsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Vigdís Gunnarsdóttir)
Flytjendur: Heimilistónar

Langsamlega besta lagið hér. Skemmtilegt og gáskafullt, í glúrnum gamaldagsstíl sem er auk þess undirstrikað með skemmtilegu myndbandi. Andi sjötta og fimmta áratugarins svífur yfir og lagið er gætt alls kyns skemmtilegum smáatriðum. Bakraddir t.d., kersknisleg innskot í gegnum lagið, og bara hárnákvæmur skammtur af flippi og fjöri. Flutningur Ólafíu Hrannar er snilld, nánast þreytulegur eða eigum við að segja mæddur, eftir öll þrifin, nema hvað! Megi þessi gimsteinn fara sem allra lengst!

Aldrei gefast upp
Höfundar lags: Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósa Björg Ómarsdóttir, Michael James Down og Primoz Poglajen
Höfundar texta: Þórunn Erna Clausen og Jonas Gladnikoff

Flytjandi: Fókus hópurinn (Sigurjón Örn Böðvarsson, Rósa Björg Ómarsdóttir, Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, Karitas Harpa Davíðsdóttir og Eiríkur Þór Hafdal)

Ég verð að viðurkenna að það er viss þreyta komin í mig gagnvart umfjöllunarefnunum í þessum lögum öllum. Það er allt í hámarksspennu; allir eiga að vera óhræddir, hugrakkir, umfaðma lífið, skína, elska og gefast aldrei upp. Þetta er eins og að vera fastur inni á sjálfstyrkingarnámskeiði.

Þetta lag er algerlega að toppa í þeim efnum og er afskaplega lítil lagasmíð þannig séð, mest einhvers konar hylki utan um klisjukenndar setningar í þeim anda sem lýst er hér að framan.

Litir
Höfundar lags og texta: Fannar Freyr Magnússon og Guðmundur Þórarinsson
Flytjandi: Guðmundur Þórarinsson

Það er eitthvað gamaldags við þetta lag, og það er ekki endilega neikvætt. Og með gamaldags meina ég að það hefði getað komið út um miðbik fyrsta áratugar þessarar aldar. Eitthvað svona „early 2000‘s“ í þessu eins og krakkarnir segja. Tiltölulega máttlaus smíð, nei, eiginlega frekar máttlaus. Óspennandi vers og viðlag, stirðbusalegur söngur og undirleikur allur er svona varla á staðnum. „Litir“ er óþægilega litlaus smíð, svo ég segi það bara hreint út.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: