Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 17. febrúar, 2018

Söngvabeygjur og -sveigjur

Hér verður síðari skammtur þeirra laga sem keppa um sæti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðvanna tekinn til kostanna.

Jæja, síðasta kvöld var… ja… ekkert neitt voðalega sérstakt verður að segjast. Og ég veit að sumir telja mig heldur hófstilltan í því mati. Alltént komust tvö sterkustu lögin áfram og er það vel. En hvað er í gangi í kvöld?

Golddigger
Höfundar lags: Jóel Ísaksson, Oskar Nyman og Sveinn Rúnar Sigurðsson
Höfundur texta: Valgeir Magnússon

Flytjandi: Aron Hannes Emilsson

OK, þetta er hresst! Og miðað við himinhrópandi slappleikann sem ég hef upplifað fram að þessu tek ég þessu fagnandi. Lagið er í fönkuðum gleðigír; hróp og köll, brass og blástur, stuð og gleði. Bruno Mars svífur þarna um og útfærslan á þessu öllu virkar. Einfalt og sleppir aldrei tökunum, viðlagið kröftugt og grípandi, textinn grallaralegur og hæfilega flippaður. Algerlega eftir formúlunni og bara hið besta mál. Aron flytur þetta á einkar sannfærandi hátt. Þetta gæti farið langt.

Óskin mín
Höfundur lags og texta: Hallgrímur Bergsson
Flytjandi: Rakel Pálsdóttir

Hugljúf ballaða, nánast vögguvísa. Þekkilegt og þægilegt en óþægilega einkennalaust. Ergo: Hljómar eins og þúsundir annarra laga af svipuðum toga. Undirspilið hæfir, gítarplokk og strengir, en bygging lagsins er fulleintóna og lítið að frétta þegar á líður. Söngmelódían og lagið passa líka ekki nógu vel saman, dálítið stirðbusalegt flæði á þessu. Rakel gerir eins vel og hægt er með takmarkaðan efnivið.

Svaka stuð
Höfundar lags: Agnes Marinósdóttir, Aron Þór Arnarsson og Marinó Breki Benjamínsson
Höfundar texta: Agnes Marinósdóttir, Lovísa Rut Kristjánsdóttir og Stefanía Svavarsdóttir

Flytjendur: Agnes Marinósdóttir, Regína Lilja Magnúsdóttir og Stefanía Svavarsdóttir

Jæja, þá erum við komin að enda áttunda áratugarins eða svo og diskótjúttið í algleymingi. Það er eitthvað íslenskt við þetta lag, ég fer að hugsa um Þú og ég og Geimstein. Diskómotturnar sem malla hérna eru allar hárréttar en lagasmíðin sjálf er óttalegt þunnildi, meira svona grúv-hjakk en alvörulag. Textinn er hallærislegur, nær ekki að fara hringinn einu sinni og flutningurinn er furðu andlaus. Maður trúir því trauðla að flytjendur séu í svaka stuði, það er eitthvert norrænt hrím yfir sem bara gerir sig ekki.

Brosa
Höfundar lags og texta: Fannar Freyr Magnússon og Guðmundur Þórarinsson
Flytjendur: Gyða Margrét Kristjánsdóttir og Þórir Geir Guðmundsson

Þeir Fannar og Guðmundur áttu einnig lagið „Litir“ og þetta lag er í svipuðum gír, lauflétt smíð sem rennur einhvern veginn í gegn án þess að þú takir eftir henni. Þetta lag hér er þó aðeins „feitara“ en Litirnir en bara rétt svo. Einfalt lag og eitthvað svona afgerandi er hvergi að finna. Flutningur er sæmilegur, Þórir gerir vel en Gyða hefði mátt vera framfærnari. Virðist með ágæta rödd en hún heldur of mikið aftur af sér. Það er ekki gott merki þegar maður er farinn að bíða eftir því að lag endi eftir ca eina og hálfa mínútu.

Í stormi
Höfundur lags: Júlí Heiðar Halldórsson
Höfundar texta: Júlí Heiðar Halldórsson og Þórunn Erna Clausen

Flytjandi: Dagur Sigurðsson

Kraftballaða til að enda allar kraftballöður. Eða hvað? Manni dettur það a.m.k. í hug þegar maður sér lagatitilinn og flytjandann. Lagið er hins vegar í óþægilega miklum formúlugír og nær aldrei flugi. Maður hugsar um Bat out of Hell og Dimmu, lagið svona gefur allt þetta í skyn en fer aldrei í gang. Dagur á betra skilið, enda framúrskarandi söngvari á ferðinni.

Hér með þér
Höfundar lags og texta: Egill Ploder Ottósson og Nökkvi Fjalar Orrason
Flytjendur: Egill Ploder Ottósson og Sonja Valdin undir merkjum Áttunnar.

Nútímaleg smíð og það gerir barasta heilmikið fyrir lagið. Forritun og hljóðmottur í takt við tímann; nettir r og b/hipphopp-taktar leiða lagið örugglega áfram. Raddleiðréttingarforrit eru heldur aldrei langt undan og þetta framlag því afskaplega móðins. Flutningur Egils og Sonju er í nettum kósígír, það er svona sældarlegur rólegheitabragur yfir öllu og það heillar. Það er aldrei farið á háa c-ið, enda myndi það skekkja heildarmyndina, sem er giska vel heppnuð. Lag sem gæti hæglega gert einhverjar rósir.

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: