A1X1C5dj-YL._SL1500_

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 19. apríl, 2014]

Hugsað, skrifað, talað, deilt… um dægurtónlist

• Ráðstefna til heiðurs Simon Frith fór fram um síðustu helgi í Edinborg
• Akademískar rannsóknir á dægurtónlist ræddar

Simon Frith er einn af áhrifaríkustu dægurtónlistarfræðimönnum heims og var einn af þeim sem tóku hvað helstan þátt í að móta þau fræði snemma á níunda áratugnum. Frith hefur nú sest í helgan stein til hálfs; sinnir enn skrifum, doktorsnemum og öðru því sem hug hans fangar en hefur hins vegar losnað undan erlinum sem fylgir kennslustörfum og skrifræði. Til að marka þessar breytingar á háttum Friths var ráðstefna undir heitinu „Studying Music“ haldin honum til heiðurs um síðustu helgi í Edinborgarskóla þar sem hann gegnir stöðu prófessors. Fræðimenn hvaðanæva úr heiminum, sem eru beint eða óbeint undir áhrifum frá honum, héldu fyrirlestra þar sem áhrif hans á þróun akademískra rannsókna á dægurtónlist voru rædd í þaula.

Á hnjánum

Þar sem ég er í námi hjá Frith um þessar stundir var ég einn af þeim „Frithsterum“ sem sinntu sjálfboðavinnu í kringum ráðstefnuna. Fólust störfin í ýmsu, ég tók m.a. þátt í dyravörslu, uppsetningu á kynningarbæklingi, skipulagningu tónleika (þar sem bróðir Simons, Fred Frith, lék) og í að meta innsend gögn frá ólíkum fræðimönnum. Þetta var heilmikil upplifun, bráðskemmtileg og dýrmæt reynsla sem náði óefað hápunkti sínum er ég aðstoðaði aðalræðumanninn, Robert Christgau, við að tengja tölvuna sína. Lágum við báðir á hnjánum í hótelherberginu hans, hann svefndrukkinn mjög (nýlentur frá New York), og býsnuðumst yfir mismunandi innstungukerfi Bretlands og Bandaríkjanna. Súrrealísk stund og eiginlega efni í sérgrein. Tilgangurinn með ráðstefnum eins og þessari er margháttaður. Með því að mæta tekur þú stikkprufu á því sem er efst á baugi í fræðunum á hverjum tíma, færð nýjar hugmyndir og innspýtingu fyrir eigin rannsóknir. Þú átt þá kost á að koma á tengslum við fólk sem er á svipuðum nótum og þú og dulda virknin er þessi einfalda, félagslega virkni. Fólk hittist, skiptist á skoðunum, hlær, fíflast, treystir bönd og kemur á nýjum.

„Léttmeti“

Fyrirlestrarnir voru jafnólíkir og þeir voru margir (65 stykki!). Sumir hálfkveðnar vísur, aðrir hárbeittir og upplýsandi. Einn fjallaði um „söngstíl“ Marks E. Smiths úr The Fall, annar um eigindi þess að syngja rokk á öðru tungumáli en ensku og einn tók á stöðu dægurtónlistaruppfræðslu í breskum háskólum í dag. Og svo má telja (sjá nánar um dagskrá hér: sites.ace.ed.ac.uk/studyingmusic). Enn eru þeir til sem finnst það öfugsnúið að ræða „léttmeti“ eins og dægurtónlist á alvarlegum nótum og einn mikilvægasti þátturinn í starfi Friths hefur verið að vinna á þessari skammsýnu afstöðu. Frith á rætur í marxískum skóla breskra fræðimanna sem fóru mikinn á þeim tíma sem fræðin voru að mótast og það sýnir sig m.a. í fræðilegum áherslum hans. Bækur sem hann hefur staðið að einn eru fáar (en þar má m.a. telja tímamótaverkið The Sociology of Rock og svo Performing Rites, mikið grundvallarrit í fræðunum) en margvísleg samstarfsverkefni eru hins vegar í tugatali; bækur ásamt öðrum, kaflar, skýrslur, hin og þessi yfirstandandi rannsóknarverkefni og fjöldinn allur af doktorsnemum sem Frith hefur sinnt af natni í gegnum tíðina. Frith er hæglátur maður, vill lítið láta á sér bera og það var mikill vandi að fá hann til að vera viðstaddur lokahóf ráðstefnunnar. Umfang hennar, innihald fyrirlestra og allar umræður manna á millum á meðan hún stóð yfir undirstrikuðu hins vegar rækilega áhrif þessa merka fræðimanns. Þar sem verkin tala, umfram annað.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: