Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 17. mars, 2018


Tónleikur í Færeyjum


Pistilritari sótti eyjarnar átján heim um síðustu helgi og var gestur á Færeysku tónlistarverðlaununum.

„Ég er búinn að glata gleraugunum mínum.“ Þetta er það fyrsta sem Kristian Blak, goðsögn í lifanda lífi og mesti tónlistargúrú Færeyja, segir við mig þegar ég, Ólafur Páll Gunnarsson af Rás 2 og ektakvinnur okkar hittum hann á flugvellinum í Vágum. Það segir ýmislegt um smæð samfélagsins, þessa eina lands þar sem Íslendingurinn kemur frá stærra landi, að Blak skuli vera mættur þarna galvaskur á sendibíl til að sækja okkur. Til allrar hamingju finnur hann svo gleraugun (höfðu dottið á milli sæta) og við ökum af stað í átt að Þórshöfn.

Tilgangur okkar er m.a. að vera viðstödd Færeysku tónlistarverðlaunin eða „virðislönin“ sem voru svo afhent á laugardeginum, með pomp og prakt, í hinu glæsilega Norðurlandahúsi í Færeyjum. Kristian Blak er hálfutan við sig þegar hann keyrir okkur og næstum búinn að keyra út af einu sinni. Þetta dagsform hans er þó í fullkominni andstæðu við óeigingjörn störf hans fyrir færeyskt tónlistarlíf. Þar er hann ekkert minna en ótrúlegur og keyrir útgáfu sína Tutl af mikilli festu, með hárnákvæman fókus á hvað beri að gera til að hámarka sýnileika og dreifingu. Blak er hugsjónamaður, einn sá mesti sem ég hef kynnst, en hann er ekki með höfuðið í skýjunum eða í óraunhæfum dagdraumum. Áratugalangt og ósérhlífið starf hans skilar nefnilega áþreifanlegum árangri.

Færeyingar fullnýta þá helgi sem verðlaunaafhendingin er sett á. Vorum við nokkur samankomin frá hinum og þessum löndum; blaðamenn, sjónvarps- og útvarpsfólk auk útsendara dreifingaraðila og útgáfufyrirtækja. Starfsmenn verðlaunahátíðarinnar sáu til þess að dagskráin væri vel væn og strax á föstudeginum börðum við nokkrar sveitir augum í Reinsaríinu. Fullkomið hljóðver, Studio Block, var heimsótt og á laugardeginum var næststærsti bær eyjanna, Klakksvík, heimsóttur. Færeyingar eru giska öflugir í þessu kynningarstarfi og gleyma ekki altækum menningarvinkli og alltaf er nóg af skerpukjöti, færeyskum bjór og hannyrðavörum.

Verðlaunin sjálf voru með hefðbundnum hætti og voru sýnd „beinleiðis“ í „kringvarpinu“. Líkt og hérlendis voru ýmsir stílar í gangi og misaðgengilegir. Þannig var Eyðun Nólsöe, sem er nokkurs konar Bubbi eyjanna, tilnefndur en einnig tók hin vinsæla þungarokkssveit Hamferð ein verðlaun.

Hið framsækna og hið dægilega voru í einni bendu en ánægðastur var ég með það að Lea Kampmann, kornung söngkona, var valin flytjandi ársins. Stuttskífa hennar, Common Blue, er virkilega falleg. Býr yfir þessum melankólíska þjóðlagatóni sem einkennir svo margar færeyskar plötur en er um leið þrælbundin í samtímann. Sú blanda hefur gefist Færeyingum vel; þegar reynt er að stíga út fyrir þessar dásamlegu eyjar og yfir á alþjóðasviðið.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: