Image result for aka niviana
Skáld Aka Niviana er helsta ungskáld Grænlendinga.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 9. nóvember, 2019.

Gróandi á Grænlandi

Pistilritari dvaldi í fjóra daga á Grænlandi í október, en Listahátíðin Nuuk Nordic Culture Festival var ástæðan. Fyrsta heimsókn höfundar en alveg ábyggilega ekki sú síðasta.

Norræna menningarhátíðin í Nuuk (eða Nuuk Nordic Culture Festival) var bæði fjölær og fjölsnærð. Formlegheit voru í lágmarki (án þess að allt væri í rugli), áhersla á alþýðulist fremur en rándýra, þekkta tónlistarmenn, og reynt eftir mætti að virkja bæði Jón og séra Jón. Tónlist, mitt sérsvið, var þarna unnvörpum en einnig dans, saumar, fatahönnun, skartgripir, leiklist, ljósmyndir, ljóðaupplestur, fyrirlestrar, pallborð, matur, bókmenntir, kvikmyndir, íþróttir og svo má lengi telja. Samstarfsáherslan var og rík, það að koma á samböndum og ég var alltaf að hitta á Grænlendinga sem höfðu tekið upp plötu í Færeyjum, með Íslendingum og Dönum eða þvíumlíkt. Ég fann mig oft í spjalli við félaga frá þessum löndum og fattaði þar og þá, hversu fjölbreytileg tengslin hjá manni geta verið.

Heimamenn þrifu auðvitað upp hljóðfærin sín. Söngvaskáld eins og Laura Aviana, raftónlistarmenn á borð við Da Bartali Crew. Það er margt á seyði á Grænlandi, mikil virkni, þó það sjáist kannski ekki (enn) í blaðaumfjöllunum og plötuútgáfum. Svo voru margir góðir gestir að utan, of margir til að telja upp. Yggdrasil, sveit Kristian Blak, hins mikla tónlistargúrú frá Færeyjum, spilaði t.a.m. og hljómsveit frá Anchorage í Alaska, Pamyua, undirstrikaði menningu Inúíta með söng og dansi. Persian Electro Orchestra mætti á svæðið, Resterne af Rigsfællesskabet (Heðin Ziska frá Færeyjum, Jesper Pedersen frá Íslandi/Danmörku og Miké Thomsen frá Grænlandi), Greta Svabo Bach frá Færeyjum o.s.frv.

Mér var sérstaklega boðið á tónleika í grænlenska þjóðleikhúsinu, þar sem Per nokkur Bloch var að spila. Hann sendi mér tölvubréf og bað mig um að kynna sig á svið, en Bloch þekkti ég ekkert fyrir. En þetta gaf mér færi á að fara „aftur fyrir pallinn“ eins og Færeyingar segja. Á efnisskránni var Kokoro, átta laga plata sem Bloch gaf út árið 2016. Þar syngur hann lögin á átta mismunandi tungumálum, m.a. er eitt, „Augnsamband“, á íslensku. Mikil vinna liggur að baki verkinu, seta með þýðendum og túlkum, og ég get staðfest að Bloch lagði þetta á sig, íslenska lagið var ljómandi vel heppnað. Sellóleikarar, píanóleikarar og rafsnúðar voru á sviðinu með Bloch og flutti hann verkið allt af mikilli næmni og fegurð, tónleikar sem voru rammaðir inn af listfengi fagurkerans.

Ég sinnti þá formlegu erindi, tók þátt í pallborði um vestnorræna tónlist, ásamt Kristian Blak, færeyska tónlistargúrúinum, Jacob Froberg frá Sisimut (stýrir Arctic Sounds-hátíðinni) og svo Ejvind Elsner frá grænlensku útgáfunni Atlantic Music. Þarna var mér ljóst hvað Grænlendingar eru að glíma við. Stærðin á landinu er fáránleg, nærumhverfi Nuuk virðist eins og hálft Ísland að stærð, með endalausum inn- og útfjörðum sem hlykkjast langt inn í land. Samgöngur eru ofsadýrar og ekki tíðar, bransinn hér þarf sárlega á stafrænni uppfærslu að halda, útflutningsskrifstofa er ekki til o.s.frv.

Restinni af þessari úttekt ætla ég hins vegar að eyða í mann að nafni Rasmus Lyberth, sem er sennilega þekktasti grænlenski tónlistarmaðurinn. Lyberth er ótrúlegur, eins konar seiðkarl („spirit man“) og tónlistin að stofni til nokkurs konar söngvaskáldatónlist. Hann hefur ferðast víða, spilað um allar koppagrundir og býr í Óðinsvéum. Hann gaf út nýja plötu í síðasta mánuði, Inuunerup oqarfigaanga / Livet skal leves på ny, og hún er einfaldlega stórkostleg að öllu leyti. Nei, ég átti ekki von á þessu, lesandi góður. Maðurinn, sem er 68 ára, syngur eins og þetta sé hans síðasta, af slíkum krafti að manni fallast eiginlega hendur. Svona ævikvöldsverk á pari við það sem Johnny Cash gerði með Rick Rubin. Magnþrunginn kraftur liggur á bak við allt, eitthvað sem trauðla verður lýst með orðum. Platan byrjar rólega en í öðru lagi er hent í afríska stemmu eins og ekkert sé sjálfsagðara. Og það svínvirkar! Platan er galdur út í gegn. Heyrn er sögu ríkari, platan streymir glatt á Spottanum, ólíkt annarri grænlenskri tónlist.

Grímur Da Bartali Crew gerir út á raftónlist og var tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs í ár.
Trommað Grænlenski trommudansinn fékk sitt pláss í kringlu Nuukbúa þegar greinarhöfundur var á ferð.
Group-Portrait_6.jpg
Gleði Hljómsveitin Pamyua kom alla leið frá Anchorage, Alaska.

One Response to Uppgjör: Nuuk Nordic Culture Festival 2019

  1. Sains Data says:

    truly appreciate this post.Really looking forward to read more

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: