Neil Young.promo.2014.unk

Fyrsti launaði blaðamaður arnareggert.is, Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir, ríður á vaðið með dómi um tónleika Neil Young í Laugardalshöll í gær. Móheiður mun einnig skila inn skýrslu um komandi ATP helgi.

 

Spilað á vindinn

 

Það var með eftirvæntingu sem ég gekk í Laugardalshöllina á hlýju sumarkvöldi ásamt þúsundum annarra og á móti mér tóku hjónin Rúna Esradóttir og Mugison sem gerði stemninguna strax mjög heimilislega. Áheyrendur þetta kvöldið voru ansi blandaður hópur, hinn venjulegi Íslendingur fannst mér á öllu en karlar komnir af léttasta skeiði voru í miklum meirihluta.

Eftir nokkur (of fá!) lög frá Mugison, tvö þeirra spáný, hófst biðin eftir manninum. Loks birtust þrír karlfauskar á sviðinu sem var skreytt sjóræningjafána og Crazy Horse indíánanum í bakgrunni.  Þeir stóðu þarna þrír í hnapp á sviðinu, djömmuðu rétt sísvona, ósköp venjulegir rétt eins og rótararnir væru að prufa græjurnar. Skyndilega snýr einn þeirra sér við, íklæddur svörtum gallabuxum með öfuga derhúfu, og hefur upp raust sína. Hér var mætt þessi rödd sem maður þekkir eitthvað svo vel. Há og furðulega ungleg og þarna var Neil gamli búinn að standa á sviðinu heillengi, boginn og dansandi með gítarinn án þess að ég hafði þekkt hann. Líkast til er ég nær þessum Neil Young aðdáendum í aldri en ég hafði gert mér grein fyrir eða þá að nærsýnisgleraugun eru ekki nógu sterk…

Fyrsta lagið var langt og rokkað, „Love and only Love  og barasta heilmikil spilagleði í þessum fauskum. Næsta lag var líka af lengra taginu, „Goin’ home“ og verður að segjast að Crazy Horse og Neil voru ansi þéttir og heimilislegir. Ég gæti vel hugsað mér að spjalla við Neil um heimsmálin eftir tónleikana; tilgerðarlaus, alþýðlegur og skemmtilegur sem hann er. Ljúfmannlega þakkaði hann fyrir boðið í þetta falleg land og talaði m.a. vel um kranavatnið. Klæddur eins og róni myndi tengdó orða það, í svörtum gallabuxum og svörtum bol með áletruninni EARTH. Seinna á tónleikunum sagðist hann harma að þessi bolur hans væri ekki til sölu frammi því honum fyndist að fleirum ætti ekki að standa á sama um jörðina okkar. Söng hann svo áróðurssönginn Who’s Gonna Stand up and save the Earth?“ en um var að ræða nýtt lag, frumflutt á Fróninu fagra! Hann tók líka þónokkra slagara sem var tekið með miklu klappi og samsöng,  Dylanperluna „Blowin’ in the wind“,  „Only love can break your heart“ og „Heart of Gold“. Hér tók hann einn í kassagítarinn og var flutningurinn á þessum lögum reglulega fallegur.

Síðasta lagið var svo „Rockin’ in the free world“, virkilega þétt, og „Like a Hurricane“ var svo fyrsti réttur eftir uppklapp. Eitt stríðshrossið, Frank „Poncho“ Sampedro, hamaðist á píanói sem virkaði vel og var þetta hinn fínasti kveðjusöngur. Fyrir utan Höllina voru jeppakarlarnir kátir og sáttir að sjá, sumir sögðu hann vera nú orðinn roskinn og aðrir skyldu ekkert í þessu grænmetiskjaftæði hans. Einum kunningja þótti verst að hafa ekki fengið að heyra Kanelstúlkuna en undirrituð var ansi sátt við Njál Unga. Megi hann halda áfram að rokka frjáls um ómuna tíð.

Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir

Lagalisti tónleikana

 

 

 

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: