Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 31. mars, 2018

Lifi grasrótin

 

Listbandalagið post-dreifing gaf fyrir stuttu út safnplötuna Drullumall 1 sem hægt er að nálgast á Bandcamp-vefsíðunni. Fjórtán tónlistarmenn úr ýmsum áttum eiga þar lög.

 

Í „gamla daga“ voru það kassetturnar sem studdu best við útgáfu bílskúrs- og svefnherbergistónlistarmanna, þær voru m.ö.o. hentugasta leiðin til að koma efni í umferð. Fagurfræðilegi vinkillinn á þessum kassettum er meira eins og eftiráhugmynd, varð eiginlega til í krafti nostalgíunnar en er líka hluti af því að yngri kynslóðir sjá gamla hluti sem svala. Fyrir okkur sem upplifðum þetta voru kassetturnar fyrst og síðast nýtilegt tól, hylki utan um tónlist fremur en nokkuð annað. OK, þetta er mikill útúrdúr (mikilvægur þó) en það sem ég ætlaði að segja: Þörf listamanna til að koma efni sínu á framfæri hefur ekkert breyst þó að tækin til þess atarna hafi gert það. Netið hefur þannig leyst kassetturnar af og síður eins og t.d. hin mjög svo ágæta Bandcamp hýsir nú nokkurs konar nútíma-kassettuútgáfur. Eins og þá sem ég ætla að gera að umtalsefni hér. Safnplatan Drullumall 1 er „kassetta“ sem lúrir í netheimum og er velkomin viðbót við samskonar útgáfur sem liggja þar einnig (ég nefni Ladyboy Records, Myrkfælni, Whynot? sem hafa sinnt svona hlutum með sóma). Drullumall 1 er nú á Bandcamp og Spotify en er einnig til á geisladiski.

Þessi hópur, post-dreifing, er með viðvist bæði á Bandcamp og Fésbókinni, en hægt var að veiða upp ýmsar upplýsingar á hinu síðarnefnda. Þar kemur m.a. fram að hópurinn sé „útgáfukollektíva sem samanstendur af ungu listafólki úr hinum ýmsu kimum grasrótarsenunnar í Reykjavík. Hópurinn hefur það að markmiði að auka sýnileika og sjálfbærni í listsköpun í krafti samvinnu“. Enginn er skráður sem forsvarsmanneskja á síðunni og svo virðist sem hópnum sé alvara með samvinnukraftinum. Tengla má finna á ýmsa listamenn sem plötuna prýða, auglýsingar um tónleika o.s.frv. og áhersla á þann einfalda hlut að koma efninu út (slagorðið „dreifing er hafin“ kemur oft fyrir). Tónlistin sjálf er af margvíslegum toga og nærfellt öll nöfnin eru ný fyrir mér. Hot Sauce Committee hefur leik með skringilegu indírokki á meðan Tobolsk Catwalk Orchestra leikur tilraunakennda raftónlist. K-óla á nokkuð áhrifaríkt lag (og myndband er til við herlegheitin, á youtube-rás post-dreifingar). Bagdad Brothers leggja sig eftir krúttlegu indípoppi í anda C86 og Gróa er kvennatríó og maður hugsar um Raincoats og Slits og þá heilnæmu kvennabylgju sem í gangi er akkúrat núna. Lögin fjórtán sveiflast þannig á milli hrárra skrítirokkslaga og sýrðra raftóna og aldrei leiðist manni ferðalagið. Sprota að hinu og þessu er hér að finna, stjörnur morgundagsins mögulegar á meðan annað fer líklega ekki út fyrir plötuna. En allt er þetta til og það er mikilvægt. Tímabil hefur verið fryst og fangað, skrásetning tónlistarlífsins okkar raungerð. Og fólkið sem að þessu stendur – í krafti samtakamáttarins – notar hér þau tæki og tól sem í gangi eru í dag til að dreifa boðskapnum sem víðast. Er það vel.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: