babes in toyland 2015

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 6. júní, 2015

Rassskellingarvélin

• Babes in Toyland rís upp með hljóðhimnusprengjandi frumkrafti

Hinn útúrþreytta frasa, „þær hafa engu gleymt“, er hægt að nota í réttum skilningi í þessari grein. Oftast nær er hann viðhafður í nostalgíukasti um sveitir eða listamenn sem mega muna sinn fífil fegri þar sem kraftur endurminningaflóðsins skolar staðreyndunum gjarnan í burtu. Við sem börðum Babes in Toyland augum í Glasgow í síðustu viku sáum og heyrðum hins vegar í sveit sem hafði nákvæmlega engu gleymt. Sveitin, sem rokkaði síðast af eftirtektarverðri brjálsemi fyrir ca. tuttugu árum, snaraði upp sturluðu setti, fór eins og jarðýta yfir salinn og rokkaði eins og andskotinn væri á hælunum á henni. Söngur forvígiskonunnar Kat Bjelland var jafn stingandi og ógurlegur og áður en í stað ungæðislegrar orku var komin lifuð orka. Rúnum ristar kinnar en ekki blóðrjóðar. Þetta var „alvöru“ og mikil reisn og fegurð yfir öllu saman.

Fyrirmyndir

Babes in Toyland var ein rosalegasta rokksveit tíunda áratugarins en hún sigldi um á gruggöldunni sem skall á af fullum þunga í upphafi hans. Ekki að hún léki gruggtónlist sjálf en eins og aðrar neðanjarðarrokksveitir á þeim tíma naut hún góðs af því að umheimurinn væri með augu og eyru á vöggu gruggsins, Seattle. Sjálf var hún hins vegar frá Minneapolis og lék grjóthart rokk, hrátt og pönkað og um það lék eftirtektarverð frumorka ef svo má segja. Söngur (óp, öskur) Kat Bjelland virtist koma frá einhverjum hræðilegum stað, djúpt úr iðrunum. Ég hvet ykkur til að setja opnunarlag Fontanelle, „Bruise Violet“, á og taka svo tvö skref afturábak frá hátölurunum. „Hvað er í gangi hér?“ hugsaði ég þegar lagið réðst á mig á sínum tíma.
Tríóið hefur lengstum verið skipað þeim Maureen Herman, Lori Barbero og Bjelland og eðlilega var hljómsveitin, hvort sem meðlimum líkaði betur eða verr, skínandi fyrirmynd stúlkna sem vildu rokka eins og strákarnir. Fleiri viðlíka sveitir voru í gangi um líkt leyti; Hole, L7 og Lunachicks en Babes in Toyland tekur þessar sveitir allar saman í nefið.

Staðalímyndum storkað

Það er erfitt að stinga Babes in Toyland í hólf. Þetta er ekki grugg eins og áður segir og þetta var heldur ekki feminíska pönkrokkið kennt við „riot grrl“. Babes… voru ekki yfirlýsingaglaðar pólitískt séð en Kathleen Hanna, tákngervingur „riot grrl“-senunnar og leiðtogi helstu sveitarinnar þar, Bikini Kill, stofnaði þá sveit eftir að hafa séð Bjelland og félaga á sviði. Áhrifin eru umdeild og nýrri sveitir (The Gossip og einkanlega Pussy Riot) hafa gripið vissa aðferðafræði frá sveitinni á lofti. Babes in Toyland urðu þó eðlilega ekki til úr engu; breskar pönksveitir eins og Slits og Raincoats höfðu vísað veginn í „kvennarokki“ (má nota það orð?) á sínum tíma en nutu þó ekki jafn mikillar almenningshylli. Að sjá þær stöllur hamstola á sviðinu í Glasgow gerði umbyltingu þeirra á sínum tíma enn skýrari í mínum huga. Staðalímyndum er storkað. Þær eru í kjólum og með varalit, kvenlegar en þær öskra líka, kjóllinn er blettóttur, það er bölvað og flækst um, mistök eru gerð og hvað með það? Allt er hægt og allt má, kvenlægir og karllægir rammar gufa upp í meðförum þeirra. „Hey, kannist þið við það…,“ sagði Bjelland fyrir eitt lagið með mjóróma, eiginlega brothættri röddu. „…þegar maður hlær svo mikið að maður pissar í buxurnar?“ Og svo var keyrt í organdi rokkkeyrslu þar sem Bjelland ranghvolfdi augunum í ómannlegum öskrum. Er það vel..

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: