[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, miðvikudaginn 1. ágúst]

Maðurinn… eða músíkin?

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með útreiðinni sem Chris Brown hefur fengið hjá gagnrýnendum að undanförnu vegna nýjustu plötu sinnar, Fortune. Ekki það að tónlistarlegum léttvigtarmönnum í móðins r-i og b-i sé ekki reglulega slátrað á altari þeirra sem allt þykjast vita best (hóst…) en atgangurinn í kringum þessa nýjustu plötu Browns á sér hins vegar upptök í nokkru sem kemur tónlistinni sjálfri ekki við. Brown er nefnilega dæmdur ofbeldismaður en í febrúar 2009 lamdi hann þáverandi unnustu sína, r- og b-stjörnuna Rihönnu, grimmúðlega.

Að aðskilja tónlistina frá manninum

Þeir dómar sem hafa vakið hvað mesta athygli ganga nú manna á milli á Fésbókinni og fá „læk“ í tonnatali. Einn þeirra er stuttur og laggóður: „Chris Brown lemur konur. Punktur og basta.“ Annar er lengri, plötunni er sannarlega rústað tónlistarlega en einnig segist gagnrýnandi eiga bágt með að trúa því að manni eins og Brown sé enn boðið á verðlaunaafhendingar og hvað þá að einhver hlusti á tónlistina hans og kaupi. Í lokin segir gagnrýnandi þeim sem vilja aðskilja tónlistina frá manninum að hoppa upp í r***gatið á sér og ei ætti að hvetja Brown áfram með því að kaupa tónlistina hans. Brown er síðan lofað „engum stjörnum um alla framtíð“ í lokin. Gott og vel, Brown hefur vissulega kallað þetta allt yfir sig. En hamsleysið í þessu öllu saman fékk hugann til að reika… og jafnvel pæla.
Fyrir það fyrsta er ljóst að plötur Brown hefðu líklega ekki fengið svona svakalega yfirhalningu hefði þetta ofbeldismál ekki komist í hámæli. Það er mjög svo greinilega að opna á byssuleyfið. Nú veit ég að tónlist Browns hefur verið rækilega undir meðallagi allt frá því að veslings drengurinn hóf að nudda sér utan í bransann en hvað ef svo væri ekki? Værum við að lesa svona dóma? Ég sé það ekki fyrir mér að menn nenntu að hafa fyrir því að þræða athugasemdir um brjálsemi og fantaskap inn í dóma um gullfalleg, tárhvetjandi meistaraverk. Einhvern veginn gengi það ekki upp. Chuck Berry, James Brown, Van Morrisson, John Lennon, Gram Parsons, Keith Richards, allt voru þetta og eru skíthælar upp að vissu marki. Ofbeldi, andlegt sem líkamlegt, var stundað af þessum köppum en margir þeirra það „heppnir“ að starfa á tímum þar sem fjölmiðlarnir höfðu ekki eins öflug tæki og tól til að grafa hluti upp og senda þá umsvifalaust í kastljósið. Er tónlist þessara manna síðri vegna þess að þeir búa yfir skítlegu eðli. Að öllum líkindum já ef við beitum þessu Brown-módeli sem er sett upp í dómunum sem ég nefndi að framan.

Karlremba og kvenhatur

Textar og myndbönd Chris Browns ýta undir karlrembu og kvenhatur, sei sei já. En slíkt er að finna hjá Rolling Stones líka og hundruðum hljómsveita og söngvara úr fjöldamörgum geirum, allt síðan rokkið hófst. Þetta liggur mun dýpra og er rígbundið í þróun dægurtónlistarinnar. Hysterían yfir Brown er fullkomlega skiljanleg en um leið er eitthvað meira en lítið hræsnislegt við hana líka. Þetta er ekki svona einfalt. Chris Brown þarf að svara fyrir margt á efsta degi en við skulum líka staldra við og hugsa um það menningarform og -breytni sem við tökum þátt í – alla daga – að viðhalda og móta.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: