nashville obsolete

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 26. september, 2015

Í þá gömlu góðu daga…

• Dave Rawlings Machine gefur út Nashville Obsolete
• Tón-unnusti Gillian Welch stígur fram fyrir skjöldu

Umslagið á þessari plötu sem nú verður tekin til kostanna er eitt það flottasta sem ég hef lengi séð. Sláandi. Og myndin sem það prýðir fylgir greininni. Ég varð svo hugfanginn að ég ákvað óðar að skrifa um plötuna, segið síðan að umslög og framsetning skipti ekki máli á þessum síðustu og bestu! Dave Rawlings, sem leiðir nefnda „vél“, er helsti samstarfsmaður blágresissöngkonunnar þekktu Gillian Welch en fyrir sex árum ákvað hann að sinna eigin tónlist í ríkari mæli og gaf þá út plötuna A Friend of a Friend undir heitinu Dave Rawlings Machine. Welch tók og þátt þá en það er víst málum blandið hvort þau séu par í platónskum skilningi eða amorskum.

Bjarteygður

Umslagið sem tryllti pistlahöfund kallar fram önnur umslög, helst þá John Wesley Harding eftir Bob Dylan og Déjà Vu eftir Crosby, Stills, Nash & Young. Um þær plötur, eins og þessa, leikur rómantískur andi í garð horfinna tíma, þegar Bandaríkin voru í umróti um miðja nítjándu öld eða svo, frjálsir útlagar og bjarteygðir bændur festu sér jarðir og létu sig dreyma um nýtt og gefandi líf. Tónlist Rawlings er innstillt á þetta, rétt eins og tónlist Welch. Áður en lengra er haldið er rétt að kynna Welch eilítið en það var um miðjan tíunda áratuginn sem hún steig fram sem helsti endurreisnarlistamaðurinn í amerískri þjóðlagatónlist, þá af appalasíu- og blágresismeiði. Fyrsta plata hennar bar titil við hæfi (Revival, 1996) og hún þjófstartaði í raun „americana“-æðinu sem brast á í kjölfar myndar Cohen-bræða, O Brother, Where Art Thou?
Fyrsta plata Rawlings minnti á margan hátt á plötur Welch og ekki að undra þar sem hann átti mikinn þátt í hljóðheimi þeirra; sá um upptökustjórn, lagasamningu, spilerí o.s.frv. Hljómurinn fór þó ögn meira út fyrir blágresið og komu þar til samstarfsmenn Rawlings eins og Ryan Adams, Bright Eyes og Benmont Tench, píanóleikari Toms Pettys. Vísir að einhvers konar samtímarokki gáraði því undir hljóðmyndinni.

Segulband

Á Nashville Obsolete er hins vegar að finna mun strípaðri tónlist og það má nánast segja að hún sé svefndrungaleg. Hún byrjar að vísu á laginu „The Weekend“ sem minnir ekki lítið á það sem Neil Young var að gera á Harvest. En svo er siglt inn í dimmt kjarrið og platan hvelfist í kringum hið tíu mínútna langa „The Trip“, smíð sem lötrar áfram af stórkostlegri reisn, meistarastykki svo sannarlega. Platan var tekin upp á segulband (nema hvað) í Woodland-hljóðverinu í Nashville og eru lögin öll eftir þau Rawlings og Welch. Paul Kowert, úr hinni frábæru Punch Brothers (tilraunakennt blágras. Já, ég veit!), er þá orðinn hluti af bandinu ásamt gítarleikaranum Willie Watson.
No Depression, breskt tímarit/vefsíða sem sérhæfir sig í ameríkana-tónlistinni, spjallaði við Rawlings vegna plötunnar og þar lýsir hann henni sem mun heilsteyptara verki en því fyrsta, sem hafi verið meira eins og safn af efni frá fimm ólíkum plötum, uppsöfnuð lög frá ýmsum tímum. Nú var hins vegar lagt af stað með einþykka áætlun í tættum gallabuxnavösunum og uppskeran eftir því.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: