lambchop idno 2013

Ljósmynd/Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir

Var að koma af tónleikum Lambchop í Iðnó. Hvað getur maður sagt? Þeir stóðust fyllilega væntingar mínar og vel það. Maður vissi  svo sem af þessu, að hér væru toppspilarar og þessi fullkomni (já, fullkomni segi ég) hljómavefur sem sveitin spinnur gjarnan á plötum sínum myndi án efa njóta sín þarna í Iðnó sem var fullkominn (þarna er þetta orð aftur) staður fyrir svona tónleika. Síðasta plata Lambchop, Mr. M (2012), er, já, ég get ekki hætt að segja þetta af því að ég get ekki sagt neitt annað, fullkomin, rennslið er svo hnökralaust að ég man í svipinn varla annað eins.

Gæði Mr. M komu mér á óvart. Ég hélt að Lambchop væri orðin að hálfgerðu hobbíbandi, eitthvað sem Kurt Wagner, aðalsprautan, sinnti í hjáverkum. Plöturnar þar á undan, OH (Ohio) og Damaged voru/eru líka í einskonar sjálfvirkum gír, traustar en nokkuð fyrirsjáanlegar. En Mr. M fékk mig til að endurhugsa ýmislegt og ég er farinn að upplifa Lambchop sem eitt rosalegasta band samtímans, „the most consistently brilliant and unique American group to emerge during the 1990s“ svo ég noti orð Allmusic.

Lay Low hitaði upp og var það vel til fundið. Hún hefur líka verið „consistently brilliant“ að undanförnu, örugg í sviðsframkomu, gefandi og einlæg. Hápunktarnir voru „By and by“ og lokalagið, „Little by little“; í báðum lögum fór hún á flug, náði að týna sér í augnablikinu og heilla viðstadda um leið.

Það var ekki amalegt að standa c.a. einum og hálfum metra frá meistara Kurt Wagner og heyra hann og félaga dæla út hverri baðmullarleginni snilldinni á fætur annarri. Þannig var þetta; varlegt, viðkæmnislegt, ofurþægilegt (án þess að vera „leim“) út í gegn, flæðið fumlaust og flauelsmjúkt. Eitt sinn grínaðist Wagner (sem var að sjálfsögðu með einkennisderhúfuna á hausnum) með þetta og sagði „Er þetta nokkuð of hátt hjá okkur?“. Meðspilarar eins og segir, frábærir, blásarinn léði lögunum krydd og píanóleikarinn henti inn klúrnu, hálfgildings uppistandi, á milli laga sem hlegið var dátt að. Var ég búinn að segja hversu einstök sveit þetta er? Það er eiginlega ekki hægt að lýsa tónlistinni, umlykjandi og aðgengileg en um leið stórskrítin. Stór og epísk en um leið lágvær og naumhyggjuleg (já, ég veit!?) þar sem kántrí, fönk og kammertónlist veltast um í bland við snilldarlega – á stundum stórfurðulega – texta Wagners. Ég fór að hugsa um Zappa þegar klúryrðin komu tíu sekúndum eftir einhverja ofurfallega, klassískt skotna nýkántríballöðuna. Hlutir sem eiga ekki að ganga saman en gera það samt.

Svona er þetta með snillingana, þversagnirnar leika um þá og okkur er hollast að fylgjast bara með og njóta. Eða eins og maðurinn sagði. Fullkomið.

 

 

 

 

Tagged with:
 

4 Responses to Lambchop í Iðnó, 7.7. 2013: Hljómræn værðarvoð…

  1. frábærir tónleikar… maður gleymdi sér algjörlega í seiðandi tónahafinu… sá þá 2002 í queens hall sem var geðveikt.. en fékk nákvæmlega sömu dáleiðingatilfinningu í kvöld 10 árum seinna… skrýtið en hressandi!

  2. Vel gert Baldvin Esra Einarsson.

  3. Hallur Már says:

    mjög svekktur að hafa misst af þessu!

  4. Baldvin Esra Einarsson says:

    Er þetta ekki hið hárrétta viðfang fyrir doktorinn?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: