lana del rey 3

[Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 14. júní, 2014]

Rey og rökkurpoppið

• Tálkvendið dularfulla Lana Del Rey með plötu númer tvö
• Dan Auerbach úr Black Keys stýrði upptökum

Ultraviolence er titillinn á annarri breiðskífu Lönu Del Rey, orð tekið upp úr frægri skáldsögu Anthonys Burgess, A Clockwork Orange (síðar kvikmynd), en það merkir hrottalegt ofbeldi/nauðgun. Ef þetta er ekki nóg til að stuða og vekja eftirtekt er lag á henni titlað „Fucked My Way Up to the Top“. Allt er þetta í kórréttu jafnvægi við þá ímynd og áru sem Del Rey hefur unnið markvisst með allt síðan hún kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir tveimur árum, þá með plötunni Born To Die. Fjarlæg og forkunnarfögur díva en stöðugt ýjað að því að eitthvað meira en lítið sé að ef gægst er undir yfirborðið. Nútíma Paradísarmissir (og áður en lengra er haldið, hér tel ég ekki með plötuna sem hún gaf út 2010 er hún notaðist enn við nafnið Lizzy Grant en sú plata kallaðist Lana Del Ray (með „a“-i) og var einungis til á iTunes í nokkrar vikur).

Fædd til að deyja

Það var lagið „Videogames“ sem fyrst vakti athygli á Del Rey í október 2011 en hún var þá nánast óþekkt með öllu. Lagið hafði lúrt á youtube-rásinni hennar í einhvern tíma og það var smáfyrirtækið Stranger Records sem gaf út. Sama mánuð samdi Del Rey hins vegar við Interscope Records og Polydor sem gáfu út fyrstu breiðskífuna, Born to Die, í janúarmánuði 2012.
Ímynd og umbúðir hafa alla tíð verið órofa partur af dægurtónlistinni; lög Presleys rokkuðu en svalur klæðnaðurinn, útlitið og tilsvör voru allt saman nauðsynlegir þættir hvað stjörnuáru hans varðaði. Og það er ekki bara sorgmædd og fjarlæg ég-nenni-þessu-varla-söngrödd Del Rey, ásamt epískum strengjum og dulmögnuðu undirspili, sem hefur reist hana í hæstu hæðir popplenda. Útlit hennar og klæðnaður og öll stílísering í ljósmyndum og plötuumslögum undirstrikar þetta; hún minnir helst á franskar poppdívur frá sjöunda áratugnum eða kaldhamraðar kvikmyndastjörnur (Greta Garbo t.d.). Og hvað sem olli því var greinilega risastórt markaðsgat fyrir þessar æfingar því að hin kvikmyndatónlistarlega Born To Die, uppfull af dramatískum, hæggengum ballöðum þar sem blóðið í Del Rey virðist á köflum varla renna, var ein af söluhæstu plötum þess árs en salan stendur nú í tæplega þremur og hálfri milljón eintaka.

„Gamaldags“

Del Rey sjálf hefur lýst því að Ultraviolence sé ögn minimalískari en fyrri verk, en dimm og kvikmyndaleg sé hún engu að síður. Dan Auerbach, söngvari og gítarleikari Black Keys auk þess að vera eftirsóttur upptökustjórnandi, var svo fenginn til að ganga frá plötunni. Del Rey stóð í þeirri trú að platan væri í höfn en eftir að hafa hitt á Auerbach í New York var ákveðið að þau flygju til Nashville, þar sem hann á hljóðver, og þar unnu þau að plötunni í nokkrar vikur.
Með Ultraviolence þarf Del Rey að sanna að ekki sé tjaldað til einnar nætur. Markaðsherferðin hefur verið glúrin, ljósmyndir halda fólki á tánum, svart/hvítar og furðu „hversdagslegar“ en að vanda er spilað inn á það sem ósagt er. Eins og lög gera ráð fyrir í samtímanum er tvítl, fésbók, iTunes og youtube nýtt til hins ýtrasta, auk „gamaldags“ miðla eins og sjónvarps og útvarps. Allt utanumhald er sem geirneglt og efasemdamenn hafa eðlilega bent á að það eigi að hylja innihaldið sem sé ekki neitt neitt, Del Rey sé 100% framleiðsluvara; sönnun á ægivaldinu sem skipulagðir kapítalistar hafa á tónlistarframleiðslu heimsins. Mín kenning er reyndar sú að þessi gagnrýni eigi ekki við í þessu tilfelli; þessi fjarræna, að því er virðist úthugsaða, ímynd er partur af aðdráttaraflinu, og í raun aðalaðdráttaraflið. Vangaveltur um hvort Del Rey sé vélmenni eður ei hjálpa síðan upp á mýtu-bygginguna og hún stendur því með pálmann í höndunum, sama hvað.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: