iiiiiiiiiiiiii

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. mars, 2015

Staðið í lappirnar

• Poppdrottningin Madonna gefur út Rebel Heart
• Eitt magnaðasta kamelljón dægurtónlistarsögunnar

Það var eitthvað undarlegt við það að sjá hina máttugu Madonnu – sem ekkert virðist nokkurn tíma bíta á – detta harkalega á rassinn á nýafstaðinni Brit-hátíð. Hún er mannleg eftir allt saman! Hún lét það hins vegar ekkert á sig fá, kláraði lagið með pompi og prakt en í textanum við það er talað um að „let down my guard“, „stumble“, „fall“ og „I picked up my crown, put it back on my head“. Bíddu nú við, var þetta kannski hluti af atriðinu eftir allt saman? Þessi „mistök“ fengu enda ærna umfjöllun í kjölfarið og atriðið mun meiri athygli en ella. Madonna neitar eðlilega öllu en svei mér þá, ég ætla að halda pínulítið í þá trú að þetta hafi verið snilldarbragð frá meistara Madonnu. Það er eitthvað rétt við það.

Sviðsljós

Alla tíð hefur Madonna vafið fjölmiðlum um fingur sér af fádæma öryggi. Hún er ótrúlega nösk á hvað það er sem þarf og hvenær rétt er að ganga bara aðeins of langt. Ekki yfir strikið – en samt. Myndband hennar við „Like a Prayer“ var mögnuð tákna-orgía þar sem henni tókst að fá alla sem máli skiptu upp á afturlappirnar. Þessi ótrúlega listakona – sem er einn vinsælasti og áhrifamesti dægurtónlistarmaður allra tíma – hefur þannig náð að halda sér í sviðsljósinu meira og minna frá því að hún kom fyrst fram í upphafi níunda áratugarins.
Hvað plöturnar varðar hafa áhrifin þó verið minni undanfarið, síðasta verk sem eitthvað verulega er spunnið í er Ray of Light (1998) en samt koma þær enn út á ca. þriggja ára fresti. Sú síðasta var MDNA (2012) sem fékk þessa hefðbundnu la la dóma. Þessu hyggst Madonna, sá ódrepandi vinnuhestur og allra handa kögull, að sjálfsögðu breyta með Rebel Heart. Í gegnum tíðina hefur Madonna vandað sig hvað samstarfsmenn varðar, á plötunum vinna einatt móðins tónlistarmenn og það er engin undantekning á því hér. Þeir sem aðstoða við upptökustjórnun eru m.a. Avicii, Blood Diamonds, Diplo og sjálfur Kanye West. Nicki Minaj, Chance the Rapper, Nas, Alicia Keys og Mike Tyson (!) koma þá við sögu í sjálfum lögunum. Dágóðum slatta af prufuupptökum var svo lekið ólöglega á netið í desember síðastliðnum og Madonna brást ókvæða við, talaði um listræna nauðgun og hryðjuverkastarfsemi og fjölmiðlar stukku óðar á yfirlýsingarnar. Hljómar kunnuglega?

Þversögn

Titillinn Rebel Heart lítur út eins og óður til eigin ferils og Madonna lét hafa það eftir sér að hann væri tvíþættur, fjallaði um tvær hliðar á sálarlífinu, þ.e. annars vegar byltingarmanninn sem braut allar reglur og mótaði nýjar í upphafi ferilsins og svo hins vegar þessa rómantísku, hjartnæmari hlið. Platan átti á tímabili að vera tvískipt að þessu leytinu til en eftir lekann var ákveðið að hræra þessu öllu saman í eina fjórtán laga plötu (fleiri lög fylgja ýmiss konar veglegheita-útgáfum).
Titillinn lýsir líka ágætlega vissri þversögn hvað Madonnu varðar. Hún virðist á stundum gera allt til að vekja á sér athygli og það er eins og hún sé alltaf í essinu sínu þegar spjótin standa á henni. En um leið er hún ofurviðkvæm, eins og alvöru listamönnum er tamt, og viðbrögðin við lekanum voru öll á þá lund. En gleymum því ekki heldur að Madonna er tónlistarmaður og í nýlegu viðtali við Billboard sést að hún veit alveg hvað hún syngur í þeim efnum, hefur góða þekkingu á samtímastraumum og glúrið innsæi í það hvernig skuli beita sér í samhnoðningu hljómplatna. Já, mikill er máttur hinnar mannlegu Madonnu!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: