lllllllllllllllllllllllll

Liima, sem inniheldur meðlimi úr Efterklang, á sviði í Osló. Ljósmynd/Arnar Eggert Thoroddsen

 

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 12. mars, 2016

Ó, þú norræna man!

• Norska tónlistar- og ráðstefnuhátíðin by:Larm fór fram um liðna helgi
• Á hátíðinni voru Norrænu tónlistarverðlaunin auk þess veitt í sjötta sinn og var það hin norska Band of Gold sem hreppti hnossið fyrir samnefnda plötu

Nefnd hátíð er orðin sæmilegasti fasti í norrænni dægurtónlistarmenningu; á henni sameinast margir hlutir, hljómsveitir viðra list sína, fólk frá bransanum/iðnaðinum kemur saman og ber saman bækur sínar o.s.frv. Einhvers konar tengipunktur fyrir ýmsar hliðar þessa geira og giska vel heppnað sem slík, alla jafna.

Ísland og Finnland?

Tókuð þið eftir þessu, „alla jafna“? Áherslur voru nefnilega dulítið einkennilegar í þetta sinnið og þá helst hvað varðar hið yfirlýsta markmið hátíðarinnar að endurspegla það sem í gangi er í norrænni dægurtónlist, og þá sérstaklega í grasrótinni. Af þeim hundruðum sveita og listamanna sem spiluðu í ár var tvennt frá Íslandi (Auður og Hermigervill) og tvennt frá Finnlandi. Langflestir komu frá Noregi, eðlilega, en enginn skortur var samt á listamönnum frá Svíþjóð og Danmörku. Þetta staðfesti þá tilfinningu sem ég hef haft undanfarin ár, t.d. í gegnum dómnefndarstörf mín fyrir Norrænu tónlistarverðlaunin og viðveru á hátíðinni, að Ísland og Finnland eru jaðarsett á fleiri vegu en landfræðilega. Hin löndin þrjú starfa að því er virðist á sameiginlegum markaði. Ef t.d. danski dómnefndarmeðlimurinn nefnir eitthvert danskt söngvaskáld þekkja Svíinn og Norsarinn það iðulega á meðan ég og Finninn stöndum yfirleitt á gati. Ljóst að ef það á að gefa fólki innsýn í tónlist Norðurlandanna eins og þau leggja sig þarf að endurskoða bókunarmálin (og ég ætla ekki einu sinni að byrja á Grænlandi og Færeyjum). Nefni það svo sérstaklega að Auður stóð sig frábærlega, þetta mjúka og melódíska R og B sem hann leggur sig eftir kom virkilega vel út og sviðsframkoman hjá honum og innlifunin í hæstu hæðum. Drengurinn á alla möguleika á því að fara langt. Ráðstefnuhlutinn er oft nýtilegur, farið er í saumana á ýmsum praktískum hlutum (koma sér á framfæri á netinu t.d., svo ég nefni eitt klassískt tema) en einnig eru hin og þessi frægðarmenni með tölur. Það besta í ár var hiklaust klukkustundarlangt spjall meistarans og Íslandsvinarins Jarvis Cockers, „Extra Ordinary“, þar sem hann lýsti fyrir fólki á sjarmerandi, oft spaugilegan hátt, hvernig ætti að bera sig að hefði maður áhuga á að vera listamaður. Þessi maður er snillingur og hann hækkar í áliti hjá pistlahöfundi með hverju árinu.

Hneyksli?

Hvernig fóru menn að því að sæma Björk ekki Norrænu tónlistarverðlaunum fyrir hina magnþrungnu Vulnicuru? Ótrúlegt. Ferlið hvað þessi verðlaun varðar er að sérstök norræn dómnefnd (ég og fjórir kollegar) setjum saman tólf platna stuttlista sem fer svo áfram til alþjóðlegrar dómnefndar sem sker úr um sigurvegarann. Já, ég segi það bara hreint út, það er óskiljanlegt að gengið hafi verið fram hjá Björk. Einn hinna alþjóðlegu dómnefndarmeðlima, Stuart Maconie frá BBC, hélt langa tölu um hvað norræn tónlist væri frumleg, ævintýragjörn og áhættusækin. Engu að síður siglir sigurvegarinn, Band of Gold, um örugg mið (platan er fín en… já… lítið meira en það) og síðan verðlaunaði hún auk þess sérstaklega Önnu Von Hausswolff og Jaakko Eino Kalevi, aðila sem eru báðir komnir með eitthvað sem hægt er að kalla alþjóðlegan feril. Nær hefði verið að gefa ungum og upprennandi listamönnum klapp á bakið með þessum aukaverðlaunum, fólki sem þarf á viðurkenningunni að halda. Nóg var af þeim; palestínsk-danski rapparinn Danni Toma, tilraunalistamaðurinn Frisk Frugt frá Danmörku (sem átti frábæra plötu), finnski þjóðlagasýrutónlistarmaðurinn Pekko Käppi og já, Teitur okkar? Ef kostur norrænnar tónlistar eru einmitt þessi frumlegheit sem Maconie talaði um, hefði ekki verið upplagt að endurspegla það í sjálfum verðlaununum? Undarlegt í meira lagi, það verður bara að segjast eins og er. Stundum er gests augað ekkert sérstaklega glöggt.

Tagged with:
 

One Response to Pælingar: by:Larm og Norrænu tónlistarverðlaunin

  1. Góður pistill, sem vekur til umhugsunar um norrænt samstarf og einnig að þeir sem syngja á sínu móðurmáli virðast ekki eiga sjéns. Vekur líka til umhugsunar um íslensku tónlistarverðlaunin þar sem enska er alls ráðandi t.d. 5 lög tilnefnd og aðeins 1 á íslensku og lagið sem er valið er sungið á ensku. Einnig fær textasmiður ársins verðlaun fyrir að semja texta á ensku?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: