Benni Skordýr

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 3. september, 2016

Blöðrur og baldursbrár

Benni Hemm Hemm hefur gefið út nýja plötu, Skordýr, og er hún 22 laga, hvorki meira né minna. Platan er eingöngu ínáanleg á netinu.

Benni Hemm Hemm hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi um áratugaskeið en Skordýr brýtur að vissu leyti blað í útgáfusögu hans. Í þetta sinnið, t.d., lætur hann alveg vera að pakka tónlistinni inn í efnislegan búning, hana er einvörðungu hægt að nálgast í gegnum netveitur eins og Spotify, Youtube og iTunes. Á youtube eru skrítin og skemmtileg myndbönd við lögin og Skordýr er jafnframt ljóðabók, hans fyrsta.

Þessir miðlar og verklagið í kringum þá er nýtt hvað Benna varðar. Í viðtali við Guðna Tómasson hjá Fréttatímanum talar Benni um að Skordýr fjalli dálítið um að sleppa tökunum og leyfa hlutunum að gerast. Ljóðabókin hafi eiginlega orðið til af sjálfu sér og þegar hann hafi hætt að segja við sjálfan sig að hann kynni ekki að búa til ljóð hafi þau loksins fengið líf.

„Ég tók lögin upp án þess að vera búinn að læra þau, gaf út ljóðabók án þess að kunna á hefðir ljóðsins og svo verða tónleikarnir ekki æfðir,“ segir Benni og vísar í tónleika sem fram fara í Mengi um helgina (tvennir þeirra fara fram í dag, kl. 15.00 og 21.00). „Orkan verður önnur og maður er eiginlega eins berskjaldaður og maður getur mögulega verið.“

Og já, þessi aðferðafræði, svo ég einbeiti mér að plötunni, er að skila sér í mjög áhugaverðri plötu. Í þessum eyrum hljómar þetta jafnvel eins og það besta sem Benni hefur gert og það er ekki eins og hann hafi sent frá sér eitthvert slor í gegnum tíðina. Það er einhver galdur hérna, mögulega og líklega vegna þessa frjálsræðis sem liggur yfir plötunni.

Benni leyfir sér allt mögulegt í gegnum lögin 22. Það er svona „White Album“ keimur yfir. Tónlistarlega koma líka tvö nöfn upp í hugann á stundum, Syd Barrett og Incredible String Band (hámarks hrós!). Í tilfelli þess fyrstnefnda þá er svipaður „afstrakt“ blær yfir, lögin fara stundum skyndilega í óvænta átt, melódíunum er leyft að hanga furðulega yfir, söngurinn fer ekki endilega í þær áttir sem maður átti von á og það er strömmað á naumhyggjulegan hátt út í loftið (sjá t.d. „Opel“ eftir Barrett svo þið áttið ykkur á samlíkingunni). Snilld. Síðarnefndu sveitina tiltek ég vegna þjóðlagablæsins sem er oft yfir lagasmíðum Benna en einnig þessa afstrakt eiginleika sem er og að finna hjá Barrett.

Platan hefst á „Góðan daginn“ sem er rafræn, myrk stemma – alls ólík því sem við eigum að venjast frá Benna en það er einmitt málið! „Dauðar Baldursbrár“ er næsta lag, hefðbundnara í forminu, dægiljúft og Barrett-legt. Á bak við gára ókennilegar raddir og þrátt fyrir venjulegheitin er líka eitthvað undarlegt í gangi. Þetta á við um margt hér og gefur plötunni styrk. „Slökkt ljós“ tekur við, hart og hrátt lag sem virðist ætla að klessukeyrast á hverri sekúndu. Og svo má telja. Titillagið er sautján mínútna ópus, „Þá þá nei nei“ einkennist af texta, eins og Benni sé að tala við sjálfan sig. „Baktería“ er ósungið tilraunadútl á meðan „Ísjaki“ er ofurmelódískt. Byrjunin minnir smá á „The Power of Love“ með Frankie Goes To Hollywood (hér á að vera broskall).

Ég mæli eindregið með þessari plötu, strákurinn hitti á einhvern galdur í ferlinu, það er ljóst. Það borgar sig að sleppa.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: