Glæsileg Plata raftónlistarkonunnar Evu808, Öðruvísi, er mikið afrek
og hiklaust besta plata ársins.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 30. desember.

Algerlega einstök

Besta plata ársins er verkið Öðruvísi eftir íslensku raftónlistarkonuna EVA808. Hér verður farið í saumana á því og rýnt í þessa merku listakonu.

Í hartnær áratug hefur EVA808, Íslendingur búsettur í Svíþjóð, verið að tálga til takta sem eru, þó fínlegir séu, byggðir í kringum hljóðheim og fagurfræði „dubstep“-s og græms. Á annarri breiðskífu sinni hendir hún þessu hins vegar öllu saman út um gluggann. Það eru taktar, klístraðir í „Hlaupbangsi (SOPHIE tribute)“ og slímugur, ógnandi gangur einkennir „Better Than Me“ hvar ýjað er að síðpönki og súrkálsrokki. Allt þetta er ofið þétt inn í tónvoð Evu og það er líka heilmikið af steinum, hafi, strengjum og brassi sem kallar óneitanlega fram landa hennar, Hildi Guðnadóttur og Jóhann heitinn Jóhannsson. Heildstætt séð er platan magnað ferðalag og því er lokað glæsilega með hinu yfirþyrmandi „Fuglar fljúga“, lagi sem er svo svakalegt að þú munt ekki ná andanum.“

Nei, þetta er ekki lýsing frá pistilritara þó hann sé meira og minna sama sinnis. Sá er ritar er Joe nokkur Muggs, gagnrýnandi hjá Wire, virtasta jaðartónlistartímariti heims. Þangað er EVA808, Eva Jóhannsdóttir, komin. Og það er stórt.

Það var ekki fyrirséð að þessi plata myndi setja okkur tónlistaráhugafólk svona rækilega á hliðina þó að vísbendingar hafi sosum legið í frumburði hennar, Sultry Venom (2020). En eins og sagt var í tónlistaruppgjöri blaðsins rétt fyrir helgina, „Taktviss bassi víkur fyrir óhlutbundnum hávaða, dansvænir sprettir hverfa fyrir tilraunabundnum óhljóðaorgíum. Þú veist í raun aldrei hvað er fyrir handan næsta horn og öll framvindan er hugrökk, djörf og leitandi. Með betri plötum síðustu ára.“

Platan inniheldur 20 lög takk fyrir og er fyrsta útgáfa Evu á merkinu GLER sem hún stofnsetti. „Svalar plötur með heitum hljóm“ eins og segir í tilkynningu. Þá segir að Eva hafi lengi verið hluti af „bassatónlistar“-senunni en hljóðheimur hennar hafi tekið að byggjast upp fyrir alvöru á Psycho Sushi-stuttskífunni (2016). Ekki sé auðvelt að skilgreina tónlist hennar en um einhvers konar „dubstep“ sé að ræða, hvar líka fari drífandi taktar og oft brotnir, skringilegir hljóðbútar.

Í sumar flutti Lestin (RÚV) viðtal við Evu. Þar ræðir hún um að platan tali beint inn í þá upplifun hennar af því að vera transkona og falla því ekki inn í hópinn („Öðruvísi“). Verkið sé því afar persónulegt og þó hún búi og starfi í Svíþjóð og geri reglulega strandhögg í Bretlandi þá nikkar hún til Íslands, til dæmis með lagatitlum. Einnig segir hún frá því að pælingin hafi verið að „setja saman sterkar minningar, sem ég gat einhvern veginn ekki lýst með orðum, í hljóð.“ Platan sé í raun ævisöguleg, unnið sé með erfiðar minningar sem tengjast því að vera trans.

Sultry Venom inniheldur drungalegt, helsvalt „dubstep“. Nítján laga hlunkur sem er í senn djúpur og dökkur en þó grundaður í dans/raftónlist. Og með heilmiklum bassa að hætti hússins en Eva lýsti því opinmynnt í áðurnefndu Lestarspjalli hversu hrifin hún væri af lágum tíðnum og djúpum bassahljóm enda sé listamannsnafnið skírskotun til þess.

Öðruvísi er svo allt annað mál eins og fram hefur komið, 65 mínútna stórvirki hvers snilld liggur í óbilgirninni, því að henda nær öllu sem væri hægt að lýsa sem takfastri klúbbatónlist út. Verkið rennur stundum eins og hljóðlist, „industrial“-tónlist jafnvel og er í grunninn óræð jaðartónlist. Algerlega einstök. Uppbrot eru stundum ískyggileg, hvar við dettum í ógurlegt hyldýpi en það er líka nægt pláss fyrir fegurð, melódíur og huggandi kafla. Já Eva, ég nem það sem þú ert að gera og mikið sem þetta er flott og fallegt hjá þér! Haltu áfram að vera þú. Nú sem endranær. Algerlega einstök.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: