Ljómi Ferill Heklu, sem spannar brátt tíu ár, er einkar áhugaverður.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 22. október, 2022.

Með algert tangarhald

Ný plata þeremínleikarans og hljóðarkitektsins Heklu Magnúsdóttur heitir hinu magnaða nafni Xiuxiuejar. Pistilritari kastaði sér fagnandi á hljóðbylgjurnar.

Ferill Heklu hefur alla tíð farið frekar lágt en við sem vitum vitum. Hekla hefur allt frá árinu 2014 gefið út plötur sem hafa verið virkilega tilkomumiklar, hvar hún heggur út hljóðheim sem er í senn dulúðugur og ægifagur. Þeremínið, það furðuhljóðfæri, miðlægt en allt í kring myrk, seiðandi og göldrótt hljóð sem styðja við afar kræsilega framvindu, hljóðheimur sem setur þig ítrekað á bríkina. Hekla vex með hverri útgáfu, ég skrifaði síðast um Sprungur (2020), sex laga plötu, en nú er það Xiuxiuejar , plata sem fékk blaðamenn The Guardian til að stilla henni upp sem samtímatónlist mánaðarins (þess má geta að sjálf PJ Harvey setti lag með Heklu inn á lagaspottann sinn í kringum útgáfuna á Sprungum og BBC fékk hana aukinheldur í viðtal þá).

Farið lágt sagði ég. Hekla sjálf er ekki beint galandi á torgum er plötur hennar koma út, umtalið ferðast að mestu leyti um neðanjarðarkreðsur en ég veit fyrir víst að nafn hennar er að komast á æ fleiri varir. Hún gefur nú út hjá Phantom Limb í Brighton og dúkkar líka reglulega upp í samstarfsverkefnum, hvort sem er með Sóleyju, Ásu Dýradóttur (Mammút), Lilju Maríu Ásmundsdóttur eða gamla félaga sínum úr brimbrettasveitinni Bárujárni, Sindra Frey Steinssyni. Hún hefur þá verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og fyrir fyrstu plötuna ( Hekla , 2014) fékk hún Kraumsverðlaun, viðurkenningu sem hún segir að hafi hvatt sig áfram á þessari braut.

Xiuxiuejar þýðir að hvísla á katalónsku en Hekla hefur dvalið langdvölum í Barcelona og var alin þar upp. Hekla blandar saman þeremínhljóðum og sellói en syngur einnig á plötunni. Hörður Bragason leikur á orgel, Óttarr Proppé syngur í einu lagi og áðurnefndur Sindri Freyr og Arnljótur Sigurðsson spila á flautur.

Eins og segir: list Heklu verður betri, framsæknari og öruggari með hverri útgáfu. Hver plata er straumlínulagaðri en sú síðasta en á þessari býður hún okkur þó upp á vissa fjölbreytni þó að grunnstoðirnar séu sem fyrr gotneskt bundnar skuggamyndir; dökkir, krómaðir og drungalegir tónar og ómar. Hryllingsmyndahugrenningatengsl eðlilega, hljóðfærið er þannig, en Hekla stýrir þessu einnig í þær áttir á vissan hátt. David Lynch á bak við mixerinn (já, ég nota öll tækifæri sem ég hef til að koma þessum meistara inn í skrif mín) og Nosferatu hjálpar til.

Það eru seiðlæti og dulmögn, lög sem skríða áfram í hægð en það er og reynt á þanþol. Það ískrar í „Enn og aftur“, líkt og það sé verið að draga klóru eftir stálfleti eða nögl eftir skólatöflu. Óþægilegt. Og það viljandi. „Ris og rof“ heitir eftir samnefndri stuttskífu hennar (2016) sem ég finn hvergi á netinu núna og ég man því hreinlega ekki hvort þetta lag er þar eða hvort það heitir bara sama nafni (leiðréttingar sendist í póstfang). En hér er a.m.k. glæst óhljóðaverk, virkilega vel samið og útsett og minnir pínu á Klöru Lewis sem ég sá á Extreme Chill-hátíðinni fyrir stuttu. Með þessu „lagi“ er Hekla aðeins að reyna á okkur og sjálfa sig og þetta er leið sem gefur ýmislegt til kynna, hugsanlega útvíkkun á hljóðheiminum í framhaldinu, hver veit.

Já, hver veit? Í öllu falli hefur Hekla fyrir löngu sannað sig sem ein af merkustu tónlistarkonum okkar í dag. Það er bara þannig. Og ekki öðruvísi.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: