Hægstreymt Silva og Steingrímur magna upp fallegan seið saman.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 30. júlí, 2022.

Sindrandi stilla

Plata Steingríms Teague og Silvu Þórðardóttur, More Than You Know, líður áfram á tandurhreinan hátt líkt og henni hafi verið dýft ofan í morgundögg.

Þessi plata býr yfir dásamlega lágstemmdum tón, rúllar áfram á fallegan og strípaðan hátt. Engin læti. Ljúf djasssöngrödd Silvu leiðir oftast nær framvinduna, blíð og tær, og rólegur – næsta varlegur – píanóleikur Steingríms styður alveg afskaplega vel við. Maður heyrir strax að hér er fólk sem hefur starfað í einhverja tíð saman áður en sest var niður í hljóðver. Þau eru að „tala saman“, vita hvert skal halda, hvenær skal hækka, lækka og leggja áherslur. Eins og nærri má geta er mikið rými í tónlistinni, jafn mikið sagt með þögninni og tónum. Lögin fá oft að hanga á undursamlegan máta, nánast eins og þau hafi verið stöðvuð. Tónlistin rennur reyndar svo afslappað áfram á stundum að hún hefur nánast á sér form „ambient“-tónlistar, umhverfð tón/hljóðlist sem fyllir upp í um leið og hún bara „er“. Nánast án þess að þú verðir hennar var. Athugið, þetta er meint sem hámarkshrós!

Lögin sem hér eru tekin til handargagns eru m.a. staðallög eins og „Ev’ry Time We Say Goodbye“ eftir Cole Porter og „It Might As Well Be Spring“ eftir Rodgers og Hammerstein. Einnig „For Heaven‘s Sake“ sem Billie Holiday gerði hvað frægast og „I Wish I Knew“, líklega þekktast í meðförum Chet Baker. Einnig „Answer Me, My Love“ sem Nat King Cole söng og „More Than You Know“, úr söngleiknum Great Day (1929) og síðar hljóðritað af tugum listamanna. Einnig er hér tiltölulega nýlegt lag, „If It Was“ (eftir Alan Hampton) og þar á Jóel sjálfur Pálsson sterka innkomu þegar hann blæs meistaralega í bassaklarinett. Sönglega er Silva sannarlega í forgrunni en Steingrímur/Steini ljær lögunum einnig rödd sína nokkrum sinnum. Sjá t.d. „If It Was“. Rödd hans er einstök vil ég segja, það þekkja allir unnendur Moses Hightower gjörla.

Ekkert laganna er í „eðlilegri“ útsetningu, tvíeykið tekur sér stundum rækilegt skáldaleyfi í útsetningum og er það vel. Opnunarlagið, „Ev’ry Time We Say Goodbye“, er afar teygt og togað mætti segja og titillagið hefst með flottum Wurlitzerpíanóspretti þar sem spuninn fær að leika lausum hala. Steingrímur hefur lýst því í viðtölum vegna plötunnar að þetta sé í raun réttu hans fyrstu alvöruskref inn í djassinn og það þó hann hafi lært slíka iðju í námi. Silva er hins vegar djasssöngkona út í gegn og þessi ólíka nálgun þeirra við formið er eitt af því sem glæðir þessa plötu lífi og gefur henni vissa sérstöðu. Það er nálægð í hljómnum, svona eins og parið standi inni í stofu hjá manni, laumandi lögunum inn í sálarkytruna á manni, óséðum. Steini hefur þá og lýst henni sem melankólískri, eitthvað sem ég get tekið undir að hluta. Því að þetta er alls ekki þunglyndislegur túndrudjass að hætti ECM og melankólían nær kannski ekki nema hálfa leið. Áferðin er eiginlega meira höfug, stillt. Ja, eiginlega æðrulaus ef það má nota það orð yfir djasstónlist.

Ragna Kjartansdóttir stýrði upptökum og Styrmir Hauksson hljóðblandaði. Grunnar voru teknir upp með Wurlizer og söng Silvu en píanói svo bætt við eftir á og var það tekið upp í hljóðveri Magnúsar Jóhanns Ragnarssonar (sem einnig lánaði píanóið sitt). Platan kom þá út á vínyl í sumar og hafði Reykjavik Record Shop veg og vanda að þeirri útgáfu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: