12655967_10207458114724172_343433773_o

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 16. apríl, 2016

Að deyða með reisn…


Unortheta er fyrsta plata svartþungarokksveitarinnar Zhrine sem áður hét Gone Postal. Meðlimir Zhrine eru Þorbjörn Steingrímsson (gítar og söngur), Nökkvi Gylfason (gítar), Ævar Örn Sigurðsson (bassi) og Stefán Ari Stefánsson (trommur). Season of Mist gefur út.

Ég fluttist til Skotlands sumarið 2012 og dvaldi þar í þrjú ár. Áður en ég „steig tímabundið til hliðar“ frá íslensku grasrótinni náði ég að sjá hina dásamlegu Gone Postal rústa Wacken Metal Battle keppninni með afar sannfærandi setti. Það komst ekki hnífurinn á milli í epísku, nokk lykluðu, óargaverki sveitarinnar. Ég sneri aftur til lands elds og ísa síðasta sumar og frétti þá að Gone Postal væru komnir enn lengra með hljóðheim sinn. Ekki bara það, heldur væru þeir einnig búnir að skipta um nafn og semja við útgáfurisann Season of Mist.

Hin sjö laga Unortheta er vitnisburður um þessa gírskiptingu sveitarinnar. Tónlistin er ekkert ósvipuð þeirri sem Gone Postal lagði upp með en engu að síður má nema nokkrar grundvallarbreytingar. Mér finnst ljósmyndin sem fylgir þessum pistli í raun segja ansi margt um þessa kúvendingu. Meðlimir standa giska alvarlegir í bragði í trjálundi, horfa upp á við utan Nökkva, gítarleikara, sem horfir til okkar, dálítið eins og hljómsveitarfundur hafi verið truflaður. Þrír meðlima eru stuttklipptir og allir í fremur hefðbundnum klæðnaði utan að Nökkvi lætur glitta í þungarokkshettupeysu. Þetta gæti allt eins verið nýbylgjurokksveit frá Brooklyn og er ljósmyndin í takt við það sem framsæknar öfgarokkssveitir samtímans standa fyrir, einskonar uppreisn gagnvart kjörmyndum þungarokksins.

Tónlistin klýfur á líkan hátt öldu venjulegheitanna. Á meðan Gone Postal áttu það til að týna sér í djammkenndum spuna og grúvi leggur Zhrine upp með hnitmiðaðar, þéttriðnar og ég vil segja „fágaðri“ lagasmíðar. Bygging er úthugsuð og framkvæmd öll svo gott sem óaðfinnanleg. Ljós og skuggi togast á; sveimkenndir kaflar líða um þar sem kassagítarpikk og draumbundin hljóð svífa um en svo er skipt harkalega í brjálaðar fítonskeyrslur þar sem Þorbjörn lætur heldur en ekki finna fyrir sér. Þetta er bikað svartþungarokk með himnakryddi („atmospheric blackened death“) og já, lesandi góður, við þungarokkselskendur elskum ekkert heitar en skilgreiningafrumskóginn! Tilraunakennt dauðarokk hinnar stórfenglegu nýsjálensku sveitar Ulcerate kemur í hugann („Spewing Gloom“) og Gorguts, helst þá seinni tíma, flögrar líka um. Zhrine láta það þó aldrei eftir sér að týnast í gítarhálsaleikfimi og skiptingaflugeldasýningum. Rokkið, sveitt og óhamið, liggur kirfilega undir allri framvindu („Empire“ t.d.). Já, þetta er gott stöff, nálgun Zhrine-liða getur af sér plötu sem ber með sér reisn en um leið einhvern ógurleika. Fallegt og ófrýnilegt á sama tíma.

Þegar fyrsta bylgja dauðarokksins flæddi yfir Íslandsstrendur upp úr 1990 eignuðumst við nokkur yfirburðabönd sem stóðu jafnfætis hvaða þeim meisturum öðrum frá Skandinavíu, Ameríku, Póllandi o.s.frv. Maður grætur það nánast enn að á sokkabandsárum heimsþorpsins og fjarveru netsins áttu þessar sveitir einfaldlega minni kosti. Það er hins vegar allt opið hjá Zhrine í þessum efnum, heimurinn er þeirra ostra. Þeir halda og ég vona innilega að þeir kunni að valda næstu misserin.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: