Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 29. apríl, 2017

Hin algera alþýðutónlist

Friðjón Jóhannsson hefur staðið að virðingarverðu björgunarstarfi hvað íslenska dægur- og alþýðutónlist varðar. Fyrir stuttu kom út þriðja platan sem hefur þetta að markmiði og er hún undir hatti Danshljómsveitar Friðjóns Jóhannssonar sem fyrr.

Platan kallast Austfirskir staksteinar 3 og fylgir í kjölfar platna sem komu út 1996 og svo 2003. Á plötunum hafa Friðjón og hans menn leitast við að varðveita lög og texta eftir austfirska laga- og textahöfunda. Á plötunni nýju er að finna lög og texta eftir sautján höfunda af Austurlandi en Friðjón er Héraðsmaður í húð og hár þó hann geri út frá Akureyri í dag. Þessi söfnun Friðjóns er stæðileg en 2011 kom út 44 laga safndiskur með fyrri plötum sem hafa verið illfáanlegar. Austfirskir staksteinar 1 og 2 prýða safnið en einnig platan Við tónanna klið (1997) sem hefur að geyma lög eftir Fáskrúðsfirðinginn Óðin G. Þórarinsson. Einnig er þar að finna lög sem komu upprunalega út á hinum ýmsu safnplötum. Í netspjalli við Friðjón upplýsir hann pistilhöfund um það að „nú eru íslensku lögin sem við höfum gefið út orðin sextíu talsins og fjöldi höfunda á lög og texta, samtals fimmtíu og einn“.

Friðjón er rekinn áfram af heillandi hugsjón, hann er með nef (og eyru) safnarans og í upplýsingabæklingi safndisksins má finna eftirfarandi stefnuyfirlýsingu: „Það er skoðun undirritaðs að verulega vanti á að varðveislu og útgáfu verka alþýðutónlistarmanna og textahöfunda sé sinnt sem skyldi og því miður á mikið af þessu efni eftir að fara forgörðum, en því verður ekki breytt nema með markvissum björgunaraðgerðum.“

Pistilhöfundur tók símaviðtal við Friðjón fyrir blað þetta er Austfirskir staksteinar 2 kom út og ég viðurkenni að áhuginn og eljan sem ég fann fyrir hinum megin á línunni var smitandi. En stælaleysið, það að þetta „væri það sem það væri“ og lúmsk kímnigáfan náði mér einnig. Í þessu fjórtán ára gamla viðtali sagði Friðjón t.d.: „Svona þegar ég pæli í þessu þá er lítið um að svona tónlist sé gefin út. Þetta fær enga spilun í útvarpi t.d. og kannski þykir hún hallærisleg. Ef við lítum t.d. til textagerðarinnar þá er hún vissulega alveg sér á báti í þessari íslensku sveitarómantík. Þetta er líka í ætt við þessa skandinavísku dægurlagasveiflu og Íslendingar þekkja ekkert hallærislegra en skandinavíska tónlist (hlær).“ Þá líkaði mér og þessi hispurslausa yfirlýsing: „Eins og nafn þessarar sveitar gefur til kynna leikum við fyrst og fremst dansmúsík – við erum ekki að spila neina tímamótamúsík. Við leikum bara venjulega íslenska tónlist.“

Friðjón fór í viðtal við Bændablaðið fyrir stuttu og þar lýsir hann því hvernig söfnunarhættirnir séu og jafnframt hver framtíðarsýnin – og vonin – sé með þessari starfsemi sem er fyrst og síðast áhugamál, framlag Friðjóns og hans fólks til íslenskrar alþýðumenningar: „Lögin hafa komið til okkar með ýmsu móti, fyrir utan það að þekkja svæðið býsna vel tónlistarlega, þá gaukar fólk þeim að okkur hér og hvar, sum hef ég fengið í hendur á ferðum mínum um svæðið, en nú veit fólk líka af okkar hugsjón og hefur samband… það er minn draumur að gefa út fleiri diska, það væri mjög gaman að geta gefið út diska með laga- og textahöfundum frá fleiri landshlutum. Staksteinum að norðan, vestan og sunnan. Við finnum vonandi einn góðan veðurdag tíma og grundvöll til að sá draumur rætist.“

Útgáfa þessi fylgir mikið til reglum heimilisiðnaðarins og er áhugasömum því bent á prýðilega Fésbókarsíðu hljómsveitarinnar þar sem hægt er að nálgast myndir, tóndæmi og margvíslegar upplýsingar. Einnig er hægt að senda tölvubréf á frjo@simnet.is.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: