Eðalmenni Helgi Þórsson og þeir öndvegispiltar sem Hljóðfæraleikararnir eru, uppstilltir og prúðbúnir. Ljósmynd/Daníel Starrason.

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 7. maí, 2022.

Beint frá býli

Norðlenska hljómsveitin Helgi og Hljóðfæraleikararnir stendur nú í umfangsmikilli vinnu sem lýtur að endurútgáfum á nokkrum af höfuðverkum hljómsveitarinnar. Er það vel.

Pistilritari á giska langa sögu með téðri sveit, er mikill unnandi svo það sé bara sagt eins og það er. Í raun og veru þarf ég að passa mig því að í hvert og eitt sinn sem ég þrýsti fingrum á lyklaborð með það að markmiði að tjá mig um mátt og megin sveitarinnar missi ég iðulega stjórn á mér og get ekki á heilum mér tekið vegna ofuraðdáunar. Heimilisleg brjálsemi heltekur mig. Reynum því að halda fókus í þessari grein, sem lýtur að mjög ákveðnu og praktísku máli, þ.e. endurútgáfum á plötum Helga og félaga.

Hér fara því frekari upplýsingar um þetta tiltæki auk athugasemda Helga Þórssonar sjálfs. Verkefnið er að sönnu metnaðarfullt og að minni hyggju, eðlilega, þjóðþrifaverk. Þannig er mál með vexti að ákveðið var, síðla árs 2021, að ráðast í að endurútgefa fjölda platna sem hljómsveitin hefur gefið út á starfsferli sínum en flestar plötur hennar hafa verið ófáanlegar í fjölda ára.

„Við höfðum orðið varir við fjölda áskorana á fésbókarsíðunni í einhver ár og fundum að tímapunkturinn var kominn,“ útskýrir Helgi. „Eftir að við höfðum setið af okkur MySpace-bóluna en ekki tekist að lifa að sjá Spotify kveðið í kútinn var ákveðið að hnusa betur af þessum málum.“

Vegna umfangs er verkefninu skipt í þrjá áfanga, að sögn þeirra félaga. Fyrsti áfangi hófst með söfnun á Karólínu Fund í nóvember og desember 2021 sem mun skila sér í útgáfu á tveimur vínilplötum og einni snældu. Stefnt er á tvo sambærilega áfanga til viðbótar til að gera höfundarverkinu skil en alls eru þetta fimmtán afurðir: Tíu breiðskífur, þrjár rokkóperur, smáskífa og jólaplata. Hluti af verkefninu er einnig að endurhljóðvinna allar útgáfur og vinna ný umslög fyrir plöturnar. Til þess hefur hljómsveitin notið stuðnings Gunnars Smára Helgasonar og Aðalsteins Svans Sigfússonar.

„Um samstarfið við Gunnar Smára og Aðalstein Svan er það að segja að það hefur verið algjör draumur,“ segir Helgi. „Gjörsamlega brilljant. Fagmenn fram í fingurgóma báðir tveir og þótt við höfum haft gott af þeim að segja í öðrum verkefnum í gegn um tíðina hafa endurnýjuð kynni í þessu prójekti bara aukið hróður þeirra.“

Hljómsveitin hefur verið nokkuð iðin við tónleikahald undanfarið, norðanmönnum til mikillar gleði og þeim költ-aðdáendum sem á landinu leynast einnig.

„Þótt framleiðsla á nýju fýsísku efni taki eðlilega lengri tíma en stafræna hliðin var það yfirlýst hjá okkur frá fyrsta degi að gera allt aðgengilegt á streymisveitum/Spotify um leið og það væri hægt,“ segir Helgi. „Það verður mjög góð tilfinning að fara inn í sumarið með Endanlega hamingju í farteskinu og til reiðu í streyminu (áætlað er að hleypa henni þangað í maí). Við getum allavega smokrað því að hér að aðdáendur Helga og Hljóðfæraleikaranna eins og þeir voru um síðustu aldamót fá ýmislegt fyrir sinn snúð á næstunni. Nú svo gæti hið rómaða lag „Manstu“, sem aldrei tókst að rata á eina einustu plötu H&H, mögulega átt loksins sinn farveg út í umheiminn.

Rokkóperan Landnám og breiðskífan Meira helvíti hafa þegar verið gerðar aðgengilegar á Spotify og þar má líka nálgast fleiri útgáfur sveitarinnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: