Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 23. júní, 2018

Bardúnslist af dýrari gerðinni

Listamaðurinn dularfulli Íbbagoggur gaf út nýtt tónlistarverk fyrir stuttu sem kallast hinu mikilúðlega nafni Le quatuor diabolique inexistant: trois pièces sinistres.

Maður hefur orðið var við nafnið Íbbagoggur reglubundið undanfarin ár þegar kemur að íslenskri neðanjarðartónlist, plötum og tónverkum er lætt út án þess að blása í lúðra, ekki er mikið um fréttatilkynningahavarí og sá sem á bakvið listamannsnafnið stendur (Héðinn Finnsson) er lítt að trana sér fram, sem er bara ansi hressandi í þessari alltumlykjandi „ég, ég, ég“ tíð. Tónlistin talar sínu máli.

Á Bandcamp-setri Íbbagoggs má finna nokkrar af útgáfum hans, streyma þeim þaðan og kaupa. Verk hans hafa komið út á ýmsum formum; sjötommum, geisladiskum eða bara sem streymi. Tónlistin er tilraunatónlist á „ytri mörkum“ ef svo má segja; ósungin raftónlist, óhljóðalist og bardúnstónlist. Fyrsta plata Íbbagoggs var Kvartett/Onívatni/Orgel (2015) og var hún gefin út af Úsland Records, en það merki stóð að glæsilegri spunatónlistarútgáfuröð á árunum 2012 til 2014. Héðinn sá þar um umslagshönnun en Úslandsliðar eru þeir Albert Finnbogason og Tumi Árnason og komu margir mektarspilarar að röðinni (plöturnar má nálgast á Bandcamp). Tengingar eru fleiri, Héðinn er m.a. potturinn og pannan í Smit Records, annað tilraunamerki íslenskt sem hefur nú gefið út plötur eftir Ingibjörgu Turchi, Tuma Árnason, Sóleyju, Sigrúnu og Íbbagogg. Eins og sjá má er líf og virkni í íslenskri neðanjarðartónlist og er það vel.

Héðinn er annars fjölhæfur mjög, menntaður myndlistarmaður og fæst við tónlist, teikningar og bókaútgáfu, m.a. í gegnum forlagið Rasspotín sem hefur verið nokk umsvifamikið. Hann hefur þá haldið einkasýningar með teikningum sínum og stuttmyndum.

En að tónlistinni. Áðurnefnd Kvartett/Onívatni/Orgel innihélt þrjú tuttugu mínútna verk sem sveifluðust frá giska miklu áreiti yfir í mýkra, þægilegra sveim. Sama ár kom hin skemmtilega nefnda Sjötomma með tónlist á báðum hliðum og eru verkin þar knappari þó stuðst sé við svipaða fagurfræði. Íbbagoggur og Arnljótur Sigurðsson gáfu svo út deiliplötu 2016 en í fyrra kom svo út hin fjögurra laga Marglyttur eða hrákaljóð. Örstutt plata, þar sem suðar, ískrar og brakar í tónlistinni sem flæðir engu að síður áfram eins og straumur. Nýjasta verkið er hins vegar líkara hinu fyrsta, langar tónsmíðar, þrjár alls og síðasta verkið alls 33 mínútur. Héðinn er við sama heygarðshornið en samt, hann er farinn að rúnna þetta betur til, stilla þessu betur upp, þróa tónlistina áfram, fægja hana og fíngera. Án þess þó að þetta sé komið út í eitthvert popp! Biddu fyrir þér. Lokaverkið er bardúnslist af dýrari gerðinni; höfugar drunur og niður undir niðri. Það er eins og tónlistin komi úr strengjum, blásturshljóðfærum, jafnvel píanói en öll eru hljóðin greinilega unnin þvers og kruss. Áhrifin af þessu eru í öllu falli giska mögnuð. Tónlistin talar sínu máli sem fyrr, og það kröftuglega.

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: