lemmy

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 31. desember, 2016

Hann var rokkið holdi klætt

Nú er rétt rúmlega ár liðið síðan Lemmy Kilmister, leiðtogi Motörhead, sneri stígvélatánum upp í loft. Fyrir mörgum var hann táknmynd rokksins en hvað er hægt að segja um sjálfa tónlistina sem hann framreiddi?

Það er ástæða fyrir því að ég sting niður penna um Motörhead núna, ári eftir fráfall Lemmy. Í kjölfar andlátsins fór ég nefnilega að hugsa um tónlist hans og arfleifð. Eins og fólk gerir gjarnan í kjölfar slíkra atburða. En ég tók þetta skrefinu lengra og lagðist í nokkuð ítarlega skoðun á plötum Motörhead en hljóðversplöturnar urðu rúmlega tuttugu og tónleika- og safnplötur eru líka þónokkrar. Ég fór í málið í tímaröð og Lemmy hefur verið í eyrunum á mér þar sem ég hef þotið um Reykjavíkina á hjóli, lungann af árinu. Og nú er ég einfaldlega að tappa af hausnum, deila með ykkur pælingum.

Ég var næstum því búinn að breyta greininni samt, þar sem frægðarmenni hafa verið að hrynja niður nú að undanförnu (Rick Parfitt, George Michael, Carrie Fisher). Og að maður tali ekki um þetta ár, sem á engan sér líka hvað þetta varðar. Næstu fimm ár eiga eftir að verða forvitnileg, enda margar af helstu hetjum og brautryðjendum nútíma dægurmenningar einfaldlega komnar á tíma.

En ég ætla að brýna fókusinn og það almennilega. Og ætla ekki að fara í losaralegar vangaveltur um mátt og megin Lemmys sem rokkstjörnu, heldur einblína á sjálfa tónlistina, það sem er grafið í rákirnar, brennt á diskinn, staflað upp í stafrænt form.

Það kemur kannski ekki á óvart að tónlistarlegt orðspor Motörhead hangir á fyrstu árunum. Samnefnda platan frá 1977 lyktar enn af hippísku rokki Hawkwind en frá og með Overkill (´79) fer allt í gang. Þessi einfalda, hráa rokktónlist, einslags brú á milli pönks og þungarokks er mótuð á næstu árum og nær hápunkti á Ace of Spades breiðskífunni (´80). Þeirra besta verk. Árið 1983 kom svo út bastarðurinn Another Perfect Day sem ég elska en ég skil vel að fólk hati hann. Einstök plata á ferli Motörhead. Góð lög og gott rennsli en það sem fólk setur fyrir sig er gítarleikur Brians „Robbo“ Robertson. Annars var níundi áratugurinn ekki gjöfull og sveitin náði lágpunkti með Rock ‘n’ Roll (´87) eins undarlega og það hljómar annars.

Með 1916 (´91) náðu Lemmy og félagar vopnum sínum, fín plata en nokkuð ofmetin finnst mér, eftir á að hyggja. Með March ör Die (´92) reyndi Lemmy að henda sér í meginstrauminn, vissulega með sínu lagi, en það svaml gekk ekki. Og frá og með Bastards (´93) var grunnurinn að seinni tíma hljómi Motörhead lagður. Merkilegt nokk, þá er þessi hljómur til muna harðari en sá sem var lagt upp með á gullöldinni, en venjulega slappast hljómsveitir með aldrinum. Og nú var aukinheldur komin rútína. Plata á tveggja ára fresti og afskaplega lítill munur á þessum verkum, í mesta lagi blæbrigða (mæli með Inferno, frá 2004, ef einhver vill taka prufu).

Á síðustu tveimur plötunum, Aftershock (2013) og Bad Magic (2015) má heyra að rödd Lemmys er tekin að gefa sig. En það er bara fallegt. Þessi einstaki maður var rokkið holdi klætt fram í rauðan dauðann og er dáður og dýrkaður fyrir það. Æ æ, ég ætlaði ekki að fara út í losaralegar vangaveltur en… hvað um það. Rokk og ról!

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: