Image result for misþyrming
Öflugir Meðlimir Misþyrmingar kalla ekki allt ömmu sína. — Ljósmynd/Verði ljós

Dómurinn var skrifaður fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 13. júlí, 2019

Með svipur á lofti

Ný plata íslensku svartmálmssveitarinnar Misþyrmingar kallast Algleymi og er hún þegar farin að vekja mikla athygli, innanlands sem utan.

Misþyrming hefur verið með helstu svartþungarokkssveitum íslenskum um langa hríð, staða sem hún innsiglaði með hinni mögnuðu Söngvar elds og óreiðu árið 2015. Senan hérlendis – og erlendis – er því búin að bíða í ofvæni eftir næsta skammti. Viðbrögðin létu enda ekki á sér standa er platan nýja, Algleymi, leit svo loks dagsins ljós og lenti meðal annars í 11. sæti World Albums-lista Billboard.

Upptökur Algleymis hófust árið 2016 en í byrjun árs 2017, þegar platan var tilbúin, voru meðlimir Misþyrmingar ekki nógu ánægðir með útkomu upptakanna, eins og fram kemur í formlegri fréttatilkynningu. Því var ákveðið að hljóðrita alla plötuna upp á nýtt. Um hljóðritun sá D.G., forsprakki sveitarinnar, og var hún svo hljómjöfnuð í Orgone Studios í Bretlandi af Jamie Gomez Arellano.

Vegur íslensks svartþungarokks er orðinn giska mikill erlendis, sérstaklega í þeim kreðsum sem eru með puttann á svarta púlsinum. Glæst umslag plötunnar inniheldur t.d. málverk eftir Manuel Tinnemans, en hann hefur unnið með virtum tónlistarmönnum í svartþungarokkinu, eins og t.d. Deathspell Omega og Urfaust.

Söngvar elds og óreiðu er gríðarlega hvöss og ofsafengin plata, hvergi slakað á frá fyrsta tóni. Orð eins og „ágengt“ og „heiftúðugt“ eiga vel við. Algleymi er hins vegar til muna fjölskrúðugra verk. Fullorðnara, á einhvern hátt. Brjálaðri keyrslu er skipt út fyrir pældari kafla og meiri mýkt, þó að ég hlæi reyndar upphátt þegar ég skrifa orðið „mýkt“ í þessu samhengi. En þar sem fyrri platan var eins og krepptur hnefi er þessi í faðmlaginu, opin fyrir öðrum leiðum og möguleikum. Ég nefni „Ísland, steingelda krummaskuð“ sem dæmi, það fer af stað í nokkurs konar „black‘n{lsquo}roll“ gír, en svo þegar lengra er komið er opnað á afar melódískan og áhrifamikinn kafla. Algleymi er marglaga verk í raun, pláss fyrir ljós og skugga, og alveg jafn tilkomumikið og frumburðurinn, bara á allt annan hátt. Allir textar á íslensku, og eru þeir sungnir af eftirtektarverðum krafti. Rennsli verksins alls er mikilúðlegt, það er lýsingarorð sem á vel við. Hvassleika og grimmd vikið í burtu fyrir eitthvað stærra og eiginlega meira ógnvekjandi. Hljómur er góður og D.G. gerir vel í að fylla inn í með tilraunakenndum blæbrigðum, sjá t.d. endann á „Allt sem eitt sinn blómstraði“, skuggalegt sveim lokar því lagi með bravúr. Og svo hendast menn í keyrslu strax á eftir í laginu „Alsæla“.

Það er mikið vor núna í íslensku svartþungarokki, alls kyns hljómsveitir að störfum og nálgast þau þetta dásamlega form á ólíka vegu. Tengingar við útlönd eru sterkar og um útgáfu og dreifingu á þessu verki sér Norma Evangelium Diaboli, frönsk útgáfa sem m.a. hefur gefið út risa eins og Deathspell Omega, Funeral Mist og Watain.

Misþyrming kom þá fram á Ascension-tónlistarhátíðinni í Mosfellsbæ fyrir stuttu, einstaklega metnaðarfullri hátíð, og það segir sitthvað að hægt sé að keyra þriggja daga, fremur sérhæfða öfgarokkshátíð hér á Íslandi (og svo erum við með tvær slíkar hátíðir til viðbótar). Misþyrming mun síðan halda í tónleikaferðalag um Evrópu í september til að fagna útgáfu Algleymis.

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: