sasha siem

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 21. febrúar, 2015

…og flestallir strákarnir

• Hin norsk-breska Sasha Siem vekur athygli
• Vann væntanlega plötu sína á Íslandi

Þau eru oft undurfurðuleg, tengslanetin og þær tilviljanir sem færa mann að ákveðinni tónlist. Ég heyrði fyrst um Söshu Siem í gegnum stórvin minn Borgar Magnason bassaleikara, þar sem ég var á ósköp hefðbundnu fésbókarrölti. Borgar lék inn á væntanlega plötu hennar, Most of the Boys, en plötuna vann hún í Gróðurhúsi/Greenhouse Valgeirs Sigurðssonar, sem sá um upptökustjórn. Borgar deildi laginu „So polite“ á veggnum sínum og eyrun sperrtust upp. Laglínan þar hendist til og frá, framvindan bundin dásamlegum skringilegheitum og yfir og undir ágengt bassaplokk, strengir og rafhljóð. Um leið er tónlistin næm og áferðarfalleg, dansar á milli klassíkur og popps og bedroom community-áran, sem er útgáfa Valgeirs og fleiri, svífur um. St. Vincent og Fiery Furnaces komu m.a. upp í hugann. Gott stöff!

Skapandi

Svo fór ég að pæla í einhverju öðru eins og gengur. Þar til annar stórvinur minn, Færeyingurinn og tónlistarséníið Jens Ladekarl Thomsen, poppaði upp á Fésbókinni (hvar annars staðar) og sagðist vera að spila með Söshu á nokkrum tónleikum á næstunni. Hann bauð vinum og kunningjum að senda sér skilaboð, hefðu þeir áhuga á að mæta. Ég renndi yfir tónleikadagskrána og viti menn, þau voru að spila í Edinborg, ekki bara Glasgow eins og svo oft þegar tónlistarmenn heiðra okkur Skotana með nærveru sinni. Og ekki nóg með það, tónleikarnir voru settir á afmælisdaginn minn, 18. febrúar! Ég greip þetta tákn frá guðunum að sjálfsögðu á lofti og smellti mér ásamt heitkonunni niður á Electric Circus, hvar atið fór fram.
En aðeins um fortíð listamannsins áður en áfram verður haldið. Sasha Siem er sprenglærður tónlistarmaður, með gráður frá Guildford, Harvard, Cambridge og verk fyrir Sinfóníusveit Lundúna. Meðal annars. Söknuður eftir söngnum rak hana svo í að fara að semja á téða plötu, sem lítur dagsins ljós í upphafi mars. Sasha (veit ekki af hverju ég nota fornafnið, en hvað um það) hefði hæglega getað haldið sig við heim klassíkurinnar, ferilskrá hennar þar er afar tilkomumikil, en er sýnilega ein af þeim sem geta ekki annað en fylgt hjartanu. Mica Levi/Micachu er annað gott dæmi um þessa afstöðu, þar sem allt er galopið, tónlistin sjálf ræður. Þetta eru skapandi andar sem illt er að halda niðri.

Hjartað

Sasha Siem stóð því hnarreist á skítugu sirkussviðinu, upphitunaratriði í þokkabót, en augun glóðu og öryggið var algert. Strákarnir, þar á meðal vinur minn Jens, sáu svo um að galdra fram tónaseiðinn. En augu allra beindust að Söshu, sem vafði mannskapnum um fingur sér. Þetta verður eitthvað eins og sagt er. Eftir tónleikana héngum við dágóða stund saman, í baksviðsherbergi á stærð við kústaskáp, og ræddum um heima og geima, m.a. norræna tónlist sem Sasha þekkti inn og út. Jens kvaddi ég með miklum virktum, en hann er eiginlega genginn úr bandinu, þarf að sinna eigin sveit, ORKU. Það er þetta með að fylgja hjartanu skiljiði…

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: