tumblr_msd1p1cPKy1qzwm2ro1_1280

Strákarnir í stuði. Myndin var tekin í ágúst þegar þeir spiluðu í Jodrell Bank stjörnuathugunarstöðinni í Cheshire. Mynd fengin af sigurros.tumblr.com

Ég fór á tónleika með Gulldrengjunum okkar, þeim sem engu verður logið upp á, í Edinborg núna á mánudaginn. Ég henti færslu um tónleikana á Fésbókina strax í kjölfarið. Sjá hér:

“Nýkominn af Sigur Rósar tónleikum hérna í Usher Hall, Edinborg. Maður er auðvitað löngu búinn með öll lýsingarorð hvað þessa drengi varðar en hvað getur maður gert þegar ein sveit er svona jafngóð – nei, jafnstórkostleg – og hún hefur verið nánast frá upphafi vega. Þetta var frábært kvöld og settið þeirra hnökralaust með öllu. Allir hinir spilararnir stóðu sig líka með sómi og sann og frábært að fylgjast með öllum þessum snuðrulausu innáskiptingum og innkomum. Maður gekk montinn út í nóttina … Sigur Rós er þjóðargersemi, segi og skrifa það…”

Ég uppskar um 100 læk við þessa færslu, mörg hver frá ættingjum strákanna, gömlum vinum og íslenskum ofuráhugamönnum um tónlist. Það var eitthvað innilega gamaldags við þetta, þrátt fyrir Fésbókarveruleikann, líkt og maður væri að senda símskeyti heim um allt væri í lagi hjá okkar mönnum og að sá fjölskrúðugi hópur sem tengist þessari sveit tilfinningaböndum væri að þakka mér fyrir að færa honum þær fréttir. Eitthvað sveitalegt og íslenskt við þetta, „strákarnir“ okkar að standa sig.

Sigurför Sigur Rósar undanfarin ár hefur verið ótrúleg og ég ætla að reyna að fjölyrða ekki mikið um það hér, enda skrifað endalaust um þann árangur hennar síðustu ár (og á vonandi eftir að gera lengi vel). Innfæddir vinir mínir hérna voru t.d. mjög æstir vegna tónleikana, líkt og stórstjörnur væru á leiðinni í bæinn. Og það voru stórstjörnur á leiðinni í bæinn, en vegna nálægðar á maður erfitt með að skynja sveitina þannig. Sveitin lék í hinni glæsilegu Usher Hall og var uppselt, sem segir margt um vigtina sem Sigur Rós hefur í dag.

Það var langt um liðið síðan ég sá sveitina síðast og ég fór því í nettan tilfinningarússíbana við að sjá hana og heyra. Einkum stungu elstu lögin mig, en á þeim árum var maður í mestum venslum við hljómsveitina og var bókstaflega að sjá hana vaxa úr því að vera vel samkeppnishæf indísveit úr Mosfellsbænum yfir í eitthvað miklu, miklu … miklu meira. Persónulega hefði ég aldrei trúað því hversu mikil þessi farsæld átti eftir að verða, vinsældarlega sem listrænt séð.

Nokkrir skoskir og enskir vinir voru með í för og kíktum við á strákana baksviðs eftir atið. Útlendingarnir voru upp með sér að komast í snertingu við þessa menn og nutu hverrar mínútu. Að vísu gekk erfiðlega að komast inn um þetta hlið himnaríkis, hópurinn villtist í höllinni og gekk hana þvera og endilanga að hætti Spinal Tap áður en Jónsi kom glaðhlakkalegur og bjargaði okkur.

Var pistilritari þá sæmdur sérstakri heiðursorðu Sigur Rósar baksviðs með pomp og prakt. Ég komst hálfpartinn við verð ég að viðurkenna og gantast var með það að nú væri verið að tryggja lofsamleg skrif til æviloka. Og eins og sést, það er algerlega að svínvirka.  

Að lokum, hér eru dómar sem ég skrifaði um Kveik og svo Valtara. Hér er líka lagalisti kvöldsins fyrir þá sem hafa áhuga.

Svo eru hér tvær myndir sem ég tók í bónus:

20131118_164042Svona kom maður sér inn. Þetta er allt orðið svaka pró hjá strákunum sei sei já…

20131118_160745Dagskráin í Usher Hall. Eins og sjá má er Sigur Rós meiriháttar menningarlegt dæmi!

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: