Og hleður á ný…

Valtara (má ekki beygja þetta?) var streymt í gær um veröld víða. Platan hefur verið í eyrunum á mér undanfarnar vikur og nú eru dómar farnir að detta inn á hinar og þessar vefsíður, m.a. BBC. Það er því óþarfi að bíða boðanna eitthvað. Ég ætla að hræra í dóm.

Merkilegt hvað einkennishljómur Sigur Rósar er orðinn … tja … einkennandi. Þó að það sé bara snark og suð í blábyrjun plötunnar, er „Ég anda“ fer í gang, þá veit maður að þetta er Sigur Rós innan við millisekúndu frá því að lagið hefst. Það er hægt að líta á svona lagað sem eitthvað fyrirsjáanlegt, kunnuglegt og þarafleiðandi ekki spennandi. En í tilfelli þessarar hljómsveitar, og sérstaklega á þessum tíma í ferli hennar (sveitin er orðin átján ára gömul, spáið í það) er það alls, alls ekki svo. Þennan hljóm, þennan mjög svo einkennandi hljóm á sveitin ein og sér, algerlega skuldlaust. Og eftir því sem frá líður er eins og hann vinni með sveitinni.  Það kann að vera að á einhverjum tíma hafi virst sem lítið hafi verið að gerast í hljóðheimi hennar, þreyta bæði og stöðnun farin að gera vart við sig. Og ég var næstum búinn að gleyma, meðlimir tóku sér auðvitað hvíld frá störfum eftir síðustu plötu, Með suð í eyrum…, líkast til vegna þessa „ástands“…

Eins einkennandi og hljómur Sigur Rósar hefur annars verið í gegnum tíðina er merkilegt að sjá hversu ólíkar plötur hennar eru innbyrðis. Von er tilraunakennd og leitandi á meðan Ágætis byrjun er dramatísk, epísk en lagamiðuð. ( ) er þungbúin, einsleit og minimalísk á meðan Takk… og Með suð í eyrum við spilum endalaust eru bjartari og aðgengilegri. Sú síðasta, og þá sérstaklega fyrsta smáskífulagið „Gobbledigook“, nánast galgopaleg. Valtari er enn nýr kafli í sögu Sigur Rósar. Platan er afskaplega sveimi bundin, er nánast „ambient“ út í gegn. Tilfinningin við að hlusta er eins og að hlýða á útgangslag Ágætis byrjunar, „Avalon“, líða um í endalausri lykkju. Já, og sú tilfinning er ekki slæm! Önnur lýsing sem á ágætlega við er að kalla þetta svigaplötu með sólskini. Hún rúllar áfram á sama minimalíska hátt en í stað myrkursins er birta. Ekki þó skjannahvít birta heldur ljúfsár og angurvær. Og það er alltaf styttra í vonina en melankólíuna.

Það er erfitt að lýsa þessari plötu. Ég ætla henda einu fram hérna í flippi: Ég sé fyrir mér lífsreyndan spakan mann standa fyrir framan mig, yfirbragð hans er rólegt og glampinn í augunum þesslegur að maður veit að ekkert kemur honum úr jafnvægi. Hann réttir hendurnar fram með hálfbrosi. Yfir honum er friður, nú sem alltaf. Tilfinningin er einhvern veginn þannig. Þessi plata er eitthvað svo hnausþykk og þétt, styrkjandi bæði og róandi. Á köflum, eins og í „Dauðalogn“ er líkt og tíminn stoppi. „Varúð“, fyrsti hápunktur plötunnar, er eins og samanrekinn hugleiðslutími; upplyftandi, dramatískt, fallegt lag.  Annað er eftir þessu. Hljómur plötunnar er þá svakalegur; tær og umlykjandi, hlýr, feitur og já, epískur. Í fullkominni tengingu við það sem lagt er upp með í lögunum.

Eins og mér líður núna þá finnst mér þetta það besta sem sveitin hefur gert síðan Ágætis byrjun kom út (sem er þeirra besta verk að minni hyggju og reyndar eitt besta verk rokksögunnar ef út í það er farið). Platan er alveg afskaplega heilsteypt, er öryggið uppmálað ef svo mætti segja og snöggan blett er erfitt að finna. Ég hef a.m.k. ekki séð hann né heyrt. Sigur Rós er ekki með ný batterí á plötunni heldur eru þessi gömlu, leyfist mér að segja þessi „réttu“, fullhlaðin á ný. Öllu rústað og svo reist aftur. Ég gríp í góða og gegna setningu hér í lokin sem ég nota stundum þegar ég skrifa um gulldrengina: Það er engu upp á þá logið.

 

Tagged with:
 

5 Responses to Plötudómur: Sigur Rós – Valtari

  1. Hallur Már says:

    Vel mælt. Hvað með stjörnugjöf /einkunn/eitthvaðtilaðlímaádiskinn? Er svoleiðis gamaldags kannski.

  2. er að fíla þetta afturhvarf hjá þeim í tætlur…skemmtilegur dómur…

  3. Já, sæll! Mér líkar.

  4. […] http://arnareggert.is/?p=120   Tagged with: Árni & Kinski • Inga Birgisdóttir • kvikmynd • Ragnar Kjartansson • sigur rós • valtari • „Ég anda“  Deildu! window.fbAsyncInit = function() { FB.init({ appId : '410625905637149', // App ID status : true, // check login status cookie : true, // enable cookies to allow the server to access the session xfbml : true // parse XFBML }); // Additional initialization code here }; // Load the SDK Asynchronously (function(d){ var js, id = 'facebook-jssdk', ref = d.getElementsByTagName('script')[0]; if (d.getElementById(id)) {return;} js = d.createElement('script'); js.id = id; js.async = true; js.src = "//connect.facebook.net/en_US/all.js"; ref.parentNode.insertBefore(js, ref); }(document)) […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: