vashti bunyan

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 11. október, 2014

…og hjartað tekur kipp

 

•Vashti Bunyan gefur út þriðju hljóðversplötu sína
•Sneri aftur í bransann árið 2005 eftir 35 ára hlé

Árið 1970 gaf Vashti Bunyan út plötu sína Just Another Diamond Day undir merkjum Philips útgáfunnar. Innihaldið draumkennd þjóðlagatónlist, líkt og viðkvæmnislegum vögguvísum hefði verið streymt úr einhverjum töfrum slegnum handanheimi. Upptökustjórn var í höndum Joe Boyd sem hafði vélað um plötur Nick Drake, The Incredible String Band og Fairport Convention, allt nöfn sem hafa verið nokkurs konar hryggjarstykki í umræðum um arfleifð og áhrif nýbylgjunnar í breskri þjóðlagatónlist. Plata Bunyan hvarf hins vegar eins og dögg fyrir sólu og í kjölfarið hætti hún afskiptum af tónlist, bæði mædd og móð.

Ferðalag

Bunyan leikur talsverða rullu í metnaðarfullri bók Robs Young, Electric Eden: Unearthing Britain’s Visionary Music (2011). Young lýsir í upphafi ævintýralegu ferðalagi hennar til Skotlands, en hún og þáverandi unnusti ferðuðust með hestvagni frá London og alla leið til Hebridesareyja. Á ferðalaginu samdi hún lögin sem enduðu á fyrrgreindri plötu (ördómur: Bók Young er hrífandi á köflum en á það til að detta niður í tilgerðarlegt, uppblásið raus). Ein af ástæðunum fyrir því að Bunyan er miðlæg í skrifum Young er sú að í sjálfskipaðri útlegð hennar fór platan hægt og sígandi að draga að sér hlustendur og öðlaðist á endanum svokallaða „költ“ stöðu, umrædd í hópi þeirra sem þykjast vera með puttann á púlsinum (frumútgáfa plötunnar er á lista yfir tíu sjaldgæfustu frumburði allra tíma skvt. Record Collector og gangverðið er um 250.000 krónur). Bunyan varð að nokkurs konar tákni fyrir þessa þrá eftir einfaldari og sannari hlutum sem einatt fylgdi þessari bylgju nýrra þjóðlagatónlistarmanna. Platan, sem var loks endurútgefin árið 2000, hafði þá rík áhrif á ákveðið tónlistarlegt umrót sem fram fór í Bandaríkjunum um sama leyti, hræringar sem gáfu af sér þjóðlagasýruna svokölluðu eða „freak folk“. Postular stefnunnar, Devandra Banhart og Joanna Newsom, settust við fótskör Bunyan og árið 2005 – 35 árum eftir frumburðinn – gaf hún út sína aðra plötu, hina frábærlega titluðu Lookaftering. Banhart og Newsom voru á meðal gesta þar og síð-klassíkerinn Max Richter sá um upptökustjórn.

Heimkoma

Poppmiðaðar fjársjóðsleitir, eins og þessi löngu gleymda plata Bunyan varð fyrir, eru orðnar að föstum lið í dægurtónlistarbransanum og aðrar söngkonur sem hafa „lent“ í svipuðu eru t.d. Linda Perhacs og Sibylle Baier. Plötur þessara listakvenna lúta svipuðum lögmálum, hafa eitthvað mjög sérstakt við sig sem hrífur nústarfandi tónlistarfólk það mikið að oft leggur það sig fram við að aðstoða þessa höfðingja í að endurræsa ferilinn. Þannig hefur Bunyan notið góðs af velvild og áhuga sér yngra fólks eins og áður er getið og t.a.m. túraði hún með Vetiver og Juana Molina í kjölfar Lookaftering. Hins vegar valdi hún að hljóðrita nýjustu plötu sína – Heartleap – að mestu ein í heimahljóðveri sínu í Edinborg þar sem hún hefur búið undanfarið. Og platan verður hennar síðasta að eigin sögn. Á Heartleap er spunnið áfram með sama þráðinn og liggur í gegnum fyrri verk, stemmurnar eru óræðar og flöktandi, framvindan hæg og seyðandi, smíðarnar brothættar og um leið ægifagrar. Heilsteypt mjög og ferillinn því þannig lagað hnökralaus. Það er því synd að Bunyan hafi ákveðið að leggja árar í bát nú en hún getur svo sannarlega gengið sátt frá borði.

 

 

Tagged with:
 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: