asdfasd

Greinin var skrifuð fyrir Morgunblaðið og birtist þar, laugardaginn 29. ágúst, 2015

Lengst inn í kviku

• Gróska og nýsköpun í tónlistarheimildarmyndum
• Nick Cave, Kurt Cobain og Amy Winehouse njóta góðs af
Síðasta vetur rak ég kvikmyndaklúbb við annan mann í háskólanum mínum í Edinborg og voru tónlistarheimildarmyndir af margvíslegum toga á efnisskránni. Við sýndum sígildar myndir (Dont look back), nýlegar (The Punk Singer, sem fjallar um Kathleen Hanna, brautryðjanda í feminísku pönkrokki), skrítnar (Europe in 8 bits tekur á jaðarstefnu í tölvutónlist þar sem gamall vélbúnaður, svosem gamlar Nintendo leikjatölvur eru nýttar til tónlistarsköpunar) og hömpuðum hinu óþekkta og alþekkta (við sýndum heimildarmynd um Simply Red. Enginn mætti). Einnig sýndum við nokkrar myndir sem hafa verið að koma fram síðustu misseri og eiga sameiginlegt að brjóta upp hina hefðbundnu, ég vil segja stöðnuðu, frásagnaraðferð sem svona myndir styðjast einatt við.

Raunsatt

Þið þekkið venjulegu myndirnar. Þær samanstanda af „talandi hausum“ (vinir, hljómsveitarmeðlimir, blaðamenn), gömlum klippum af tónlistarmanninum á sviði eða í myndbandi og stillimyndum af ljósmyndum og blaðaúrklippum (sem þysjað er inn á). Myndin er svo leidd áfram í tímaröð og niðurstaðan alltaf sú að tónlistarmaðurinn hafi verið góð og gegn manneskja en vissulega uppfull af mótsögnum. Um snilligáfuna er ekki efast og hún er jafnan undirstrikuð með társtokknum, uppskrúfuðum athugasemdum undir restina. Er nema von að við séum orðin pínu þreytt á þessu? Þegar eitthvað er orðið full fyrirsjáanlegt er kominn tími á að hrista aðeins upp í forminu og það hafa nokkrir leikstjórar verið að gera að undanförnu og hefur myndum þeirra verið hampað, oftast réttilega. The Devil and Daniel Johnston, mynd frá 2005 sem fjallar um samnefndan jaðartónlistarmann, er að einhverju leyti ákveðinn forveri þessarar bylgju. Þessi frábærlega unna mynd sló áður ókunnan tón þar sem teiknimyndainnskot og ljóðrænt flæði gaf umfjöllunarefninu meiri dýpt. Tónlistarmaðurinn var þá ekki settur í hetjulegt ljós heldur var leitast við að draga fram raunsanna mynd af viðfangsefninu.

Bessaleyfi

Og það er þessi sannleiksleit, ef við getum orðað það sem svo, sem hefur stýrt þessum síðustu afrekum. Ég nefni hér nokkrar myndir sem dæmi. 20.000 Days on Earth með Nick Cave tekur sér stórkostlegt bessaleyfi hvað form og frásögn varðar en með því, eins undarlega og það hljómar, komumst við miklu nær Cave en ella. Montage of Heck (Kurt Cobain) og Amy (Amy Winehouse) hafa verið lofaðar mjög, þykja fara óþægilega nálægt sínu fólki á stundum en þær hafa líka verið settar niður. Faðir Winehouse er t.d. ekki sáttur og er það nema furða. Fólk er orðið vant glysmeðferðum í svona myndum og veit ekki hvernig á að snúa sér þegar ófullkomnunin fær líka að sjást. Ein er þá mynd sem er allsérstök, The Possibilities Are Endless fjallar um þrautagöngu Edwyn Collins (Orange Juice) eftir lífshættulegt heilablóðfall. Uppsetning myndar er tilraunakennd, sem er áhugavert í sjálfu sér, en úrvinnsla ekki nægilega góð. Myndin er eiginlega leiðinleg, svo ég orði það bara eins og það er.
Mér finnst eins og hin þrautleiðinlega þriggja tíma mynd Martin Scorsese um George Harrison, þar sem Harrison var látinn líta út fyrir að vera hálfguð, hafi verið ákveðinn endapunktur hvað „glansmyndirnar“ varðar. Ég hlakka því til að sjá fleiri myndir í nýja stílnum. Nóg er af viðfangsefnunum. Hinn „raunverulegi“ Jim Morrison, einhver?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Set your Twitter account name in your settings to use the TwitterBar Section.
Follow

Get every new post on this blog delivered to your Inbox.

Join other followers: